Börn úr búðunum í Calais flutt til Bretlands

Írösk kúrdafjölskylda býr sig undir að yfirgefa Jungle flóttamannabúðirnar. Samkvæmt …
Írösk kúrdafjölskylda býr sig undir að yfirgefa Jungle flóttamannabúðirnar. Samkvæmt sérbreskri löggjöf er breskum stjórnvöldum skylt að sjá um þau börn sem eru ein á ferð í Evrópu. AFP

Von er á 14 börnum úr flóttamannabúðunum í Calais til Bretlands í dag, þar sem þau verða sameinuð ættingjum sínum. Börnin 14 eru þau fyrstu úr hópi 100 barna sem breska innanríkisráðuneytið hefur samþykkt að fái flýtimeðferð til skráningar inn í landið áður en búðirnar, sem í daglegu tali eru nefndar Jungle búðirnar verða jafnaðar við jörðu.

Samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins þá er börnum sem eru ein á ferð heimilt að sækja um hæli í því landi sem þau eiga nána ættingja í, á meðan að öðrum flóttamönnum og hælisleitendum er skylt að sækja um hæli í fyrsta örugga landinu sem þeir koma til.

Samkvæmt sérbreskri löggjöf er breskum stjórnvöldum þó einnig skylt að sjá um flutning og stuðning við þau börn úr röðum flóttamanna og hælislendenda sem eru á ferð í Evrópu án forráðamanna.

Börnunum verður gert að skrá sig hjá skrifstofu innanríkisráðuneytisins í Croydon við komuna til landsins, en að því loknu munu þau hitta fjölskyldur sínar sem bíða þeirra í kirkjum í nágrenninu.

Rowan Williams, erkibiskupinn af Canterybury er í hópi þeirra trúarleiðtoga sem taka á móti börnunum. Í viðtali við Radio 4 útvarpsstöð BBC sagði Williams Bretland hafa „grundvallar siðferðisskyldu“ til að bjóða „fólki sem hefði orðið fyrir miklu áfalli og byggi við mikla neyð“ upp á öryggi.

„Þetta er upphaf nokkurs konar viðbragðs við aðstæðum sem eru enn verulega mikið áhyggjuefni,“ sagði hann.

Talið er að um 10.000 manns dvelji í Jungle flóttamannabúðunum, en margir þeirra sem þar dvelja hafa reynt að komast til Bretlands með því að lauma sér um borð í flutningabíla sem eiga leið um Ermasundsgöngin.

Francois Hollande vill jafna Jungle búðirnar við jörðu og flytja íbúa búðanna í búðir og skráningamiðstöðvar víðs vegar um Frakkland. Hjálparsamtök hafa hins vegar lýst yfir áhyggjum af því  að ekki verði búið að ljúka skráningu allra þeirra barna sem þar dvelja áður en búðirnar verða rifnar.

Amber Rudd, innanríkisráðherra Bretlands, sagði í samtali við fréttavef BBC að ráðuneytið leggi nú mikla áherslu á að hraða þeirri vinnu að koma börnunum til Bretlands, en góðgerðarsamtök hafa engu að síður lýst yfir áhyggjum af að engar aðgerðir hafi enn verið skipulagðar varðandi skráningu og mat á þeim börnum í búðunum sem ekki eiga ættingja í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert