Faraldur sjálfskaða í flóttamannabúðum

Starfsemi búðanna á Nauru hefur verið mótmælt daglega í Sydney …
Starfsemi búðanna á Nauru hefur verið mótmælt daglega í Sydney síðustu vikur. AFP

Einangrun sem hælisleitendur í Ástralíu eru látnir sæta á afskekktri eyju í Kyrrahafi jafnast á við pyntingar samkvæmt alþjóðlegum lögum. Þetta er niðurstaða skýrslu Amnesty International um búðirnar. Mannréttindasamtökin segja að í búðunum séu misþyrmingar algengar og það þar geisi faraldur sjálfskaða.

Yfirvöld í Ástralíu senda þá hælisleitendur sem reyna að komast sjóleiðina til landsins í búðir á eyjunum Nauru og Manus. Í skýrslu Amnesty kemur fram að jafnvel þótt fólkið teljist flóttamenn sé það ekki flutt til Ástralíu. 

Í búðunum á eyjunni Nauru eru yfir 400 manns, konur, karlar og börn. Búðirnar hafa verið gagnrýndar harðlega eftir að ásakanir um misþyrmingar og sjálfskaða fólksins voru gerðar opinberar í dagblaðinu Guardian í ágúst.

Frétt mbl.is: Saumaði saman á sér varirnar

Anna Neistat, sem tók viðtöl við meira en 100 manns vegna skýrslu Amnesty International, segir að viðtölin hafi opinberað algjöra örvæntingu meðal fólksins. Ræddi Neistat við hælisleitendur, flóttamenn og fyrrverandi og núverandi starfsmenn í búðunum. 

Niðurstaða Amnesty er m.a. sú að „faraldur sjálfskaða“ geisi í búðunum á Nauru. Um helmingur hælisleitendanna sem rætt var við við gerð skýrslunnar sögðust glíma við geðræn vandamál sem flestir sögðu að hefðu komið upp er þeir voru fluttir í búðirnar. 

Fólkið sagði að í búðunum væri óboðleg heilbrigðisþjónusta, börnum væri misþyrmt og að íbúar eyjunnar hefði ráðist á og hótað hælisleitendunum. 

Hælisleitendur í Nauru hafa frá því í fyrra getað gengið frjálsir ferða sinna um eyjuna og eru því ekki lengur læstir inni. En Amnesty segir að ábendingar hafi borist um að dæmi séu um að þeir sem hafi farið út úr búðunum hafi orðið fyrir árásum og verið nauðgað. 

Amnsety segir að einangrun hælisleitenda og flóttafólks á eyjum falli undir skilgreiningu um pyntingar í alþjóðalögum. 

Amnesty gagnrýnir einnig áströlsk stjórnvöld fyrir að halda búðunum lokuðum fyrir umheiminum og leynd yfir starfsemi þeirra. Aðeins örfáir blaðamenn og fulltrúar mannúðarsamtaka hafi fengið að heimsækja þær síðustu ár.

„Hér dey ég þúsund sinnum“

Sumir þeirra sem Amnesty ræddi við við gerð skýrslunnar segja að dvölin á Nauru hafi verið verri en stríðsástandið sem þeir flúðu í Írak eða Sýrlandi.

„Ég get ekki snúið heim. En hér dey ég þúsund sinnum,“ segir íraskur karlmaður. „Í Írak fær maður bara eina byssukúlu eða sprengju og svo er því lokið. En hér er ég smám saman að deyja úr sársauka.“

Nítján ára piltur, Ali Kharsa, sem verið hefur í búðunum í Nauru í þrjú ár, segir: „Við flúðum Sýrland en að vera í Nauru var það erfiðasta sem ég hef upplifað.“

Stjórnvöld í Ástralíu hafa verið mjög ströng þegar kemur að „bátafólkinu“ eins og þeir eru kallaðir sem flýja til landsins sjóleiðina. 

Yfirvöld á Nauru höfnuðu ásökunum um misnotkun og ofbeldi er fréttir af slíku birtust í fjölmiðlum í ágúst. Sögðu þau fréttirnar „uppspuna“.

Um 800 hælisleitendur og flóttamenn eru í búðunum á Manus-eyju. Í ágúst samþykktu áströlsk stjórnvöld að loka búðunum þar eftir að hæstiréttur Papúa Nýju-Gíneu komst að þeirri niðurstöðu að það bryti gegn stjórnarskránni að halda fólki þar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert