Loksins komnar heim

Eftir tvö og hálft ár eru þær loksins komnar í faðm fjölskyldunnar, 21 stúlka af þeim rúmlega 200 sem var rænt í Chibok í Nígeríu af vígasveitum Boko Haram, í apríl 2014 sameinaðist fjölskyldum sínum í gær. Það voru mörg tár sem féllu af hvörmum stúlknanna og fjölskyldna þeirra í gær.

Miklir fagnaðarfundir voru og í höfuðborg Nígeríu, Abuja, var haldin hátíð þar sem þær lofuðu drottinn fyrir björgunina. Ein þeirra, Gloria Dame, lýsti því hvernig hún hafi lifað af án matar í 40 daga.

„Ég var ... í skóginum þegar flugvél varpaði sprengju skammt frá mér en ég slapp ómeidd,“ sagði Dame á samkomunni í gær. „Við fengum engan mat í einn mánuð og tíu daga en við dóum ekki. Við þökkum guði,“ segir Dame.

Athöfnin var skipulögð af leyniþjónustu Nígeríu sem annaðist samningaviðræður um lausn stúlknanna. Flestar þeirra stúlkna sem var rænt á sínum tíma eru kristnar en þær voru neyddar til þess að snúast til íslam á meðan þær voru í haldi mannræningjanna. 

Af þeim 276 stúlkum sem var rænt sluppu margar úr haldi aðeins nokkrum klukkustundum síðar en aðrar voru ekki svo lánsamar. Ein þeirra fannst fyrr á þessu ári. Þá orðin nítján ára og móðir fjögurra mánaða gamals barns.

Upplýsingamálaráðherra Nígeríu, Lai Mohamed, segir að fljótlega verði vonandi hægt að fá fleiri stúlkur lausar úr haldi. Það sé stærri hópur en sá sem núna slapp úr haldi mannræningjanna.

Boko Haram samtökin eiga að vera reiðubúin til þess að semja um lausn 83 stúlkna til viðbótar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert