Viss um að ná loftslagsframlögum

100 milljarðar dollara eiga að renna frá þróuðum ríkjum til …
100 milljarðar dollara eiga að renna frá þróuðum ríkjum til vanþróaðra til að hjálpa þeim að takast á við loftslagsbreytingar. AFP

Hópur auðugri ríkja heims segist viss um að þeim takist að standa við fyrirheit um að leggja fátækari ríkjum til hundrað milljarða dollara á ári til þess að takast á við loftslagsbreytingar. Miðað við núverandi loforð verði úr 67 milljörðum dollara að spila árið 2020.

Fyrirheitið um að ríkustu lönd heims, sem hafa jafnframt staðið að meirihluta þeirrar losunar á gróðurhúsalofttegundum sem valda nú og munu valda loftslagsbreytingum á jörðinni, veiti þeim fátæku fjárhagslega aðstoð til að aðlagast og vinna gegn loftslagsbreytingum var eitt helsta bitbein loftslagsviðræðnanna í Kaupmannahöfn árið 2009.

Samkvæmt því ætla auðugu ríkin að veita að minnsta kosti hundrað milljörðum dollara til þeirra fátæku á hverju ári frá árinu 2020. Féð á að nýta til að hjálpa fátæku ríkjunum að skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa og verja sig fyrir afleiðingum hnattrænnar hlýnunar eins og þurrkum, flóðum og ágangi sjávar.

Hundrað dollara markmiðið var ekki að finna í Parísarsamkomulaginu sem samþykkt var í desember en kveðið var á um það í öðru skjali sem er ekki bindandi. Ríkin sem hafa lofað að leggja féð til gáfu út skýrslu í dag þar sem fram kemur að þau telji að markmiðið náist. Undir það skrifa 38 þróuð ríki og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Útreikningar OECD benda til þess að loforð sem voru gefin í fyrra komi upphæðinni upp í 67 milljarða dollara árið 2020. Sú upphæð sé varfærið mat frekar en áreiðanleg spá.

Ræða skiptinguna á milli Evrópuríkja

Umhverfisráðherrar Evrópusambandríkja eru nú saman komnir í Lúxemborg til að ræða hvernig þau ætla að að ná sameiginlegu markmiði sínu um 40% samdrátt í losun fyrir árið 2030 eins og þau hafa skuldbundið sig til með Parísarsamkomulaginu.

Áætlað er að auðugri ríki í norðanverðri álfunni muni taka á sig bróðurpart samdráttarins í losun. Framkvæmdastjórn ESB hefur sagt að hún telji Breta skuldbundna til að vinna að markmiðinu jafnvel þó að þeir gangi úr sambandinu.

Íslensk stjórnvöld lýstu því yfir fyrir loftslagsfundinn í París að þau ætluðu að vera með í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsríkja og Noregs um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert