300 kennarar mótmæla brottvísun barna

Afgönsk börn.
Afgönsk börn. AFP

Hundruð sænskra kennara hafa mótmælt nýjum samningi sænskra yfirvalda við afgönsk yfirvöld en samningurinn getur þýtt að fjölmörg afgönsk börn verði send úr landi til heimalandsins.

Þetta er liður í hertum aðgerðum sænskra stjórnvalda gagnvart flóttafólki og öðrum hælisleitendum.

Í bréfi sem 300 kennarar rita undir og birt er í Svenska Dagbladet segja kennararnir að með samningnum sé verið gera lítið úr fræðslu og um leið möguleikum barna á góðu lífi. Barna sem hafi þegar þjáðst skelfilega. „Við krefjumst þess að Svíþjóð hætti við brottvísanir til Afganistan,“ skrifa kennararnir.

Sænska ríkisstjórnin skrifaði undir tvíhliða samkomulag við Afganistan fyrr í mánuðinum og við það tækifæri sagði dómsmálaráðherra Svíþjóðar, Morgan Johansson, að um góðan samning væri að ræða fyrir Svíþjóð.

Afgönsk yfirvöld heita því að vernda Afgana sem snúa aftur heim gegn árásum og ofsóknum á meðan Svíar heita því að greiða ferðakostnað fólks og greiða þeim allt að 70 þúsund sænskar krónur fyrir að yfirgefa landið. Eftir að afgönsk stjórnvöld samþykktu samkomulagið gátu Svíar byrjað að vísa 838 Afgönum úr landi sem hafði verið synjað um hæli. Alls bíða 36 þúsund Afganar þess að fá hæli í Svíþjóð.

Aðeins er hægt að vísa fylgdarlausum börnum úr landi ef annaðhvort ættingjar eða einhverjir aðrir aðstandendur geta boðið þeim heimilisvist.

„Fyrir nokkrum dögum fékk einn nemandi okkar fyrirskipun um að yfirgefa landið. Hann er 15 ára. Innan þriggja ára verður hann fluttur til Afganistan,“ segir í bréfi kennaranna.  Þeir segja að drengsins bíði áralöng vist í flóttamannabúðum, á stríðshrjáðu svæði, að fara huldu höfði eða vera á flótta.

Stór hluti Afganistan er undir stjórn talibana og rasismi gagnvart Persum sem tala hazaras er ríkjandi. Margir þessara ungu Afgana sem eru á flótta hafa aldrei komið til landsins sem foreldrar þeirra koma frá heldur ólust margir þeirra upp í Íran þar sem þeir eru í barnaþrælkun án nokkurra mannréttinda.

„Það er til skammar að reka börn og ungmenni til Afganistan. Hvers virði er ríkisstjórn ef hún er ófær um að vernda börn í sínu eigin landi og gefa þeim von um framtíð?“ segir í bréfi kennaranna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert