Bardagi um sögufræga borg

Mosúl er næststærsta borg Íraks.
Mosúl er næststærsta borg Íraks.

Íraskar hersveitir eru „á undan áætlun“ í baráttu sinni um að ná borginni Mosúl á sitt vald af hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams, samkvæmt Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Um 30 þúsund manna hersveit frá Írak nálgast borgina og nýtur hún stuðnings úr lofti og af jörðu niðri frá bandamönnum, með Bandaríkin í fararbroddi.

Útiloka ekki efnavopn

Alþjóðlegar hjálparstofnanir, þar á meðal Rauði krossinn, segjast vera undirbúa sig fyrir mögulega notkun efnavopna í bardaganum um borgina.

„Við getum ekki útilokað notkun...efnavopna,“ sagði Robert Mardini frá Alþjóðanefnd Rauða krossins (ICRC).  

Hann sagði að ICRC sé að undirbúa þjálfun heilbrigðisstarfsmanna vegna þessa og myndi útvega búnað til heilbrigðisstofnana í kringum Mosúl sem gæti aðstoðað fólk ef það yrði fyrir efnavopnaárás.   

Frétt mbl.is: Helstu aðferðir í bardaganum um Mosúl

Reykur í lofti um 45 kílómetrum suður af Mosúl.
Reykur í lofti um 45 kílómetrum suður af Mosúl. AFP

Næststærsta borg Íraks

Mosúl samanstóð eitt sinn af aröbum, Kúrdum, Túrkmenum og kristnu fólki áður en borginni var tvístrað í áralöngum átökum, sem leiddu til þess að Ríki íslams tók borgina á sitt vald í júní árið 2014.

Mosúl er næststærsta borg Íraks og talið er að íbúar hennar séu núna hátt í ein milljón, flestir súnní-múslimar.

Ríki íslams segir borgina afar mikilvæga og hafa samtökin lýst borginni sem íslömsku kalífadæmi.

Sameinuðu þjóðirnar segja að bardaginn um Mosúl gæti orðið til þess að um ein milljón manna þurfi að yfirgefa heimili sín og að hann hafi áhrif á um 1,5 milljónir almennra borgara.

Íraskir hermenn á svæðinu al-Shurah, um 45 kílómetrum suður af …
Íraskir hermenn á svæðinu al-Shurah, um 45 kílómetrum suður af Mosúl. AFP

Mikilvæg staðsetning

Mikilvægar viðskiptaleiðir fyrir norðurhluta Íraks liggja í gegnum Mosúl, þar á meðal þjóðvegur að landamærum við Sýrland og borgina Aleppo. Aðrar leiðir liggja til Tyrklands og Bagdad, höfuðborgar Íraks.

Lengi hefur verið verslað með matvæli og vefnað í Mosúl, sem er einnig þekkt fyrir að framleiða fínan bómull sem nefnist muslin.

Höfuðborg héraðsins Nineveh, Mosúl, er staðsett um 350 kílómetrum norður af Bagdad og 50 kílómetrum suður af stærstu stíflu Íraks sem er núna undir stjórn liðsmanna peshmerga, sem eru hersveitir sjálfstjórnarhéraðs Kúrda í norðanverðu Írak.

AFP

Sögufræg borg

Miðborg Mosúl er sögufræg þar sem margar kirkjur er að finna. Í borginni bjuggu um 35 þúsund kristnir áður en Ríki íslams mætti á staðinn og skipaði þeim að snúast til múslimatrúar, borga sérstakan skatt eða yfirgefa borgina. Flestir flúðu.

Arabar tóku borgina yfir árið 641 og náði hún menningarsögulegum hápunkti á 12. öld áður en hún féll í skaut Mongóla árið 1262. Síðar náðu Persar og Ottómanar (Tyrkir) völdum í borginni.

Mosúl varð hluti af Írak þegar þjóðin var búin til úr rústum Ottóman-heimsveldisins á þriðja áratug síðustu aldar.

Nineveh hefur ávallt verið landamærahérað sem önnur héruð og nágrannaríki hafa haft augastað á hvað varðar aukin völd.

Íraskir hermenn.
Íraskir hermenn. AFP

Grunnur að stofnun Ríkis íslams

Undir stjórn Saddams Hussein í Írak, þar sem súnni-múslimar réðu ríkjum, jukust umsvif Mosúl og fjölgaði íbúum þar í um tvær miljónir.

Dyggustu fylgjendur Hussein bjuggu í Mosúl, sem síðar lögðu grunninn að stofnun Ríkis íslams. Þeir stunduðu fjárkúgun með því að bjóða upp á vernd gegn peningagreiðslu og þénuðu þannig mikinn pening áður en Hussein var steypt af stóli.

Eftir að Ríki íslams hrakti íraskar hersveitir á brott úr borginni hófust liðsmenn hennar handa við að eyðileggja menningarleg verðmæti. Þúsundir sjaldgæfra bóka og handrita voru brennd og ómetanlegar styttur voru eyðilagðar.  Einnig sprengdu  liðsmenn Ríkis íslams helgidóminn Nabi Yunus í loft upp í júlí árið 2014.

Frétt mbl.is: Hafa eyðilagt ómetanleg verðmæti

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert