„Einn daginn mun spilaborgin hrynja“

AFP

Evrusvæðið virkar ekki í núverandi mynd og Evrópski seðlabankinn hefur gengið of langt í að reyna að bjarga henni. Þetta er haft eftir Otmar Issing, prófessor og fyrrverandi aðalhagfræðingi bankans, á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.

„Einn daginn mun spilaborgin hrynja,“ er haft eftir Issing sem hefur verið nefndur einn af feðrum evrunnar vegna þátttöku hans í að koma gjaldmiðlinum á laggirnar á sínum tíma. Issing segir stjórnmálamenn hafa svikið evruna. Haldið hefði verið rangt á málum vegna hennar í byrjun og síðan hafi staðan farið versnandi.

„Raunin er sú að þetta mun snúast um að redda sér, berjast frá einni krísu til þeirrar næstu. Það er erfitt að spá því hversu lengi það heldur áfram en þetta getur ekki gengið svona endalaust,“ segir Issing. Evrópski seðlabankinn hafi farið út fyrir heimildir sínar í lögum til þess að bjarga gjaldþrota evruríkjum.

Fram kemur í fréttinni að orð Issing séu til marks um þá staðreynd að undirliggjandi vandamál evrusvæðisins hafi ekki verið leyst sem byggist á því að svæðið samanstendur af ólíkum hagkerfum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert