Lögreglumaður skaut andlega veika konu

Lögreglumaður í New York skaut andlega veika konu til bana.
Lögreglumaður í New York skaut andlega veika konu til bana. AFP

Bandarískur lögreglumaður hefur verið sviptur starfsréttindum eftir að hann skaut svarta andlega veika konu til bana.

Hugh Barry var á meðal lögreglumanna sem var kallaður að íbúð Deborah Danner í New York á þriðjudagskvöld. Útkallið var skýrt þannig að þar væri „andlega veik manneskja.“

Barry hvatti konuna til að leggja frá sér skæri sem hún hélt á en skaut hana síðan tvívegis eftir að hún reyndi að slá til hans með hafnaboltakylfu.

Mikil reiði hefur brotist út í Bandaríkjunum vegna málsins. Ekki eingöngu vegna húðlitar hins 66 ára gamla fórnarlambs, heldur einnig vegna andlegra veikinda hennar.

Bill de Blasio, borgarstjóri í New York, sagði í gær að konan „ætti að vera á lífi núna.“ James O´Neil lögreglustjóri sagði að deildin hans hefði brugðist.

„Svona búum við okkur ekki undir aðstæður. Okkar fyrsta verk er að vernda lífið, ekki að taka líf þegar hægt er að koma í veg fyrir það,“ sagði O´Neal.

Lögreglan í New York sinnir 128.000 útköllum á ári vegna fólks sem á við andleg veikindi að stríða. Lögreglumenn eiga að nota aðferðir til að draga úr spennu á vettvangi frekar en að beita valdi.

Lögreglan hafði nokkrum sinnum áður verið kölluð að íbúð Danner en í öll skiptin hafði hún verið færð á spítala.

Ekki er vitað hvers vegna lögreglumaðurinn, sem hafði starfað sem slíkur í átta ár, fylgdi ekki þeirri þjálfun sem hann hafði hlotið.

Ed Mullins, yfirmaður stéttarfélags lögreglumanna, hélt því fram að Barry hefði skotið í sjálfsvörn. Sagði hann málið snúast um pólitík enda væri borgarstjórinn að sækjast eftir endurkjöri á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert