Nauðgunarmáli gegn NBA-stjörnu vísað frá

Derrick Rose.
Derrick Rose. AFP

Dómari í Los Angeles í Bandaríkjunum vísaði í dag frá máli gegn bandaríska körfuknattleiksmanninum Derrick Rose. Kona hafði kært Rose og tvo vini hans fyrir nauðgun.

Kviðdómarar í málinu ræddu sín á milli í innan við fjórar klukkustundir áður en þeir komust að áðurnefndri niðurstöðu. Kröfum konunnar var hafnað en hún sóttist einnig eftir því að fá 21 milljón bandaríkjadala í skaðabætur.

Konan lagði fram kæru en hún sakaði Rose og tvo vini hans um að hafa nauðgað henni ítrekað eftir að hafa byrlað henni ólyfjan í íbúð hennar fyrir þremur árum.

Rose, sem leikur með New York Knicks, hefur neitað öllum sökum og segir að kynlífið hafi átt sér stað með samþykki allra aðila.

Konan tilkynnti málið til lögreglu og lagði fram kæru í ágúst í fyrra.

Mark Baute, lögfræðingur Rose, segir að málið hafi verið bull og konan hafi einfaldlega verið að sækjast eftir fjármunum NBA-leikmannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert