Tugir létust þegar yfirfull ferja sökk

AFP

Rúmlega fimmtíu lík hafa fundist eftir að farþegaferja hvolfdi á ánni Chindwin í Búrma á laugardaginn. Ferjan var yfirfull af fólki en á meðal farþega voru fjölmargir háskólakennarar og nemendur þeirra. Óttast er að fleiri lík eigi eftir að finnast.

Fram kemur í frétt AFP að unnið væri að því að ná ferjunni upp þar sem hún sökk. Tekist hefur að bjarga um 150 manns en yfirvöld telja að um 250 manns kunni að hafa verið um borð. Manntjónið gæti því orðið allt að eitt hundrað manns.

Haft er eftir Sa Willy Frient, sem fer fyrir björgunaraðgerðum, að 53 lík hafi fundist. Ekki sé ljóst hvort hægt verði að ná ferjunni upp í kvöld svo leita megi í henni. Að minnsta kosti fjórir úr áhöfn ferjunnar hafa verið handteknir og eiga yfir höfði sér ákærur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert