Bláeygður tesali slær í gegn á netinu

Khan er
Khan er "chia wala", tesölumaður. AFP

Bláeygðum tesala frá Islamabad hefur verið boðinn fyrirsætusamningur eftir að mynd af honum fór eins og eldur um samskiptamiðla. Arshad Khan, 18 ára, varð þess fyrst var að hann væri orðinn frægur þegar hann sá drengi með dreifiblöð með mynd af andliti sínu.

Það var ljósmyndarinn Jiah Ali sem fangaði Khan á mynd á markaði í Islamabad á sunnudag og deildi myndinni á Instagram. Færslan breiddist út á Twitter og Facebook, og í kjölfarið fór af stað leit að nafni mannsins fagureyga.

Á þriðjudag kom í ljós að um var að ræða Arshad Khan, ungling frá Kohat, sem hefur haft þann starfa sl. þrjá mánuði að brugga te á Itwar-markaðnum.

Í kjölfarið hefur Khan mátt sæta því að vera ofsóttur af fjölmiðlum, sem allir vilja segja sögu fríðleikspiltsins frá Islamabad. Þá hafa fjölmargir óskað eftir sjálfsmyndum með kappanum.

Það vekur athygli að myndin af Khan vakti ekki síður fjaðrafok á samfélagsmiðlum á Indlandi, en samskipti ríkjanna eru ekki góð um þessar mundir eftir að uppreisnarmenn í Kashmír drápu 19 indverska hermenn í september.

Indland hefur ásakað stjórnvöld í Pakistan um að skjóta hlífiskildi yfir bardagamönnunum, en því hafa Pakistanir neitað. Deilan hefur haft áhrif á Bollywood en verkalýðsfélag leikara og kvikmyndagerðarmanna í Mumbai hefur bannað framleiðslufyrirtækjum í borginni að ráða starfsmenn frá Pakistan.

Sjálfur segist Khan kunna að meta athyglina en segist síður vilja að fólk taki af sér myndir þegar hann er að vinna. Honum hefur sem fyrr segir áskotnast fyrirsætusamningur við netsöluna Fitin.pk en segist gjarnan vilja leggja leiklistina fyrir sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert