Drápu hátt í 200 uppreisnarmenn

Húsarústir af völdum sprengjuárásar í borginni Aleppo.
Húsarústir af völdum sprengjuárásar í borginni Aleppo. AFP

Tyrkneskar herþotur gerðu loftárásir á svæði í norðurhluta Sýrlands og drápu allt að 200 uppreisnarmenn Kúrda, samkvæmt upplýsingum tyrkneska hersins.

Þoturnar gerðu árásir á 18 skotmörk í héraðinu Maarrat Umm Hawsh, sem er norður af borginni Aleppo.

Herinn segir að 160 til 200 uppreisnarmenn úr röðum YPG hafi verið drepnir.

Sýrlenska mannréttindavaktin staðfesti að loftárásirnar hafi verið gerðar en gat ekki tjáð sig um fjölda látinna.

Hún sagði að níu byggingar sem notaðar voru sem höfuðstöðvar YPG, vopnageymslur og fundarstaðir hafi verið á meðal þeirra staða sem sprengdir voru.

Frétt mbl.is: Beinast gegn Ríki íslams og Kúrdum

Stjórnvöld í Ankara, höfuðborg Tyrklands, líta á YPG og Lýðræðislega sambandsflokk Kúrda (PYD) sem hryðjuverkasamtök sem tengjast hinum útlæga Verkamannaflokki Kúrda (PKK).

PKK hefur verið skilgreindur sem hryðjuverkasamtök af Bandaríkjunum og Evrópusambandinu. Flokkurinn hefur átt í blóðugum átökum við tyrknesk yfirvöld frá árinu 1984.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert