Lést eftir að vera synjað um fóstureyðingu

Mynd úr safni. Milluzzo var lögð inn á spítalann eftir …
Mynd úr safni. Milluzzo var lögð inn á spítalann eftir að vandamál komu upp á meðgöngu. AFP

Saksóknaraembættið í Catania á Sikiley hefur hafið rannsókn á dauða 32 ára konu sem var ólétt af tvíburum, en lést eftir að hafa misst fóstur sem læknir er sagður hafa neitað að eyða.

Fjölskylda konunnar, Valentinu Milluzzo, segir lækninn sem annaðist hana hafa neitað að eyða fóstrunum af því að hann væri mótfallinn fóstureyðingu. Cannizzaro spítalinn, þar sem Miluzzo lést, hafnar hins vegar staðfastlega þessum fullyrðingum fjölskyldunnar.

Milluzzo var lögð inn á spítalann sem er í borginni Catania á Sikiley í lok september, eftir að vandamál komu upp á meðgöngu og fæðing fór af stað, en hún var aðeins gengin 19 vikur. Milluzzo hafði áður verið í frjósemismeðferð á annarri stofnun.

Ástand Milluzzo hélst stöðugt á spítalanum í meira en hálfan mánuð, en í lok síðustu viku þá lækkaði blóðþrýstingur hennar skyndilega og heilsu hennar tók að hraka.

Lögfræðingur fjölskyldunnar segir annað fóstranna hafa átt í öndunarerfiðleikum er hér var komið, en að kvensjúkdómalæknir á spítalanum hafi neitað að eyða fóstrunum til að bjarga móðurinni.

„Á meðan að það er enn á lífi þá mun ég ekki grípa inn í,“ á læknirinn að hafa sagt.

Ekki var því gripið til neinna aðgerða á meðan að fóstrið sem átti í vanda var enn lifandi og nokkrum klukkustundum síðar voru bæði fóstrin látin að sögn lögfræðingsins.

Heilsufari Milluzzo hrakaði síðan yfir nótt og degi síðar var hún flutt yfir á gjörgæsludeild þar sem hún lést.

Angelo Pellicano, yfirmaður sjúkrahússins, hafnar skýringum lögfræðingsins.

 „Þetta snérist ekki um meðvituð mótmæli læknisins við fóstureyðingum, því hér var ekki um að ræða fóstureyðingu af fúsum og frjálsum vilja, heldur kom fósturlátið til vegna alvarlegra aðstæðna, þannig að ég útiloka að læknirinn hafi sagt það sem þau fullyrða,“ hefur Ansa fréttastofan eftir eftir Pellicano.

Fréttastofan kveðst hins vegar hafa heimildir fyrir því að læknirinn hafi verið skrá yfir þá sem eru mótfallnir fóstureyðingum.

Saksóknaraembættið í Catania hefur frestað jarðarför Milluzzo þar til búið er að úrskurða hvað hafi valdið dauða hennar og þá segir fréttavefur BBC óstaðfestar fréttir herma að starfsfólk spítalans kunni að sæta rannsókn vegna málsins.

Fréttavefurinn Corriere hefur eftir Paolo Scollo, einum yfirlækna spítalans að allir læknar á sinni deild væru mótfallnir fóstureyðingum og að utanaðkomandi læknar væru kallaðir til þegar þörf væri á. „Þar sem um fósturlát var að ræða í þessu tilfelli, þá var ekki þörf þá utanaðkomandi aðstoð. Þannig að við teljum lækninn ekki vera sekan um vanrækslu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert