Mun Trump ekki una niðurstöðunni?

Donald Trump að loknum kappræðum kvöldsins, sem fram fóru í …
Donald Trump að loknum kappræðum kvöldsins, sem fram fóru í Las Vegas. AFP

Bandaríski auðkýfingurinn og forsetaframbjóðandinn Donald Trump ítrekaði í kappræðum kvöldsins fullyrðingar sínar um að forsetakosningunum væri hagrætt. Neitaði hann að svara því hvort hann myndi una niðurstöðu kosninganna.

„Ég mun líta á það þegar þar að kemur,“ sagði Trump. „Það sem ég hef séð er svo slæmt.“

Clinton brást þá reið við og virtist vart trúa ummælum Trump.

„Við skulum hafa á hreinu hvað hann er að segja og hvað það þýðir. Hann er að kasta rýrð á lýðræði okkar,“ sagði Clinton.

„Mér blöskrar að einhver sem er frambjóðandi annarra okkar tveggja stóru flokka, skuli taka þessa afstöðu.“

Spurður af stjórnandanum Chris Wallace hvort hann muni lýsa yfir ósigri ef niðurstöðurnar sýna að hann hafi tapað fyrir Clinton, maldaði Trump enn í móinn.

„Ég skal halda þér spenntum, allt í lagi?“

„Þetta er skelfilegt,“ sagði Clinton þá.

„Svo viðbjóðsleg kona“

Þessi fordæmalausa árás á hið lýðræðislega ferli þar vestanhafs var aðeins lítill hluti þeirra átaka sem áttu sér stað á palli kappræðnanna í kvöld. Til dæmis má nefna atvik þegar Trump greip fram í fyrir svari Clinton við spurningu spyrilsins, og sagði hana „svo viðbjóðslega konu.“ (e. „such a nasty woman.“)

Þá gengu frambjóðendurnir af sviðinu án þess að takast í hendur, líkt og hefð er fyrir, en það gerðu þau sömuleiðis ekki við upphaf kappræðanna.

„Þú ert strengjabrúðan“

Clinton skaut snemma á Trump og fullyrti að Vladimír Pútín Rússlandsforseti stæði að baki framboðs hans til forseta. Vísaði hún til skýrslna bandarískra leyniþjónustna, þar sem segir að tölvuárásir Rússa hafi beinst að flokki hennar og framboði. Krafðist hún þess af Trump að hann fordæmdi þessi afskipti.

Trump sagði þá að hann myndi án vafa geta samið um betri samskipti við Kreml en Clinton gæti í embætti forseta.

„Pútín, miðað við allt sem ég hef séð, ber enga virðingu fyrir þessari manneskju.“

Svar Clinton var þá hnífbeitt: „Ja, það er vegna þess að hann myndi frekar vilja strengjabrúðu sem forseta Bandaríkjanna.“

Trump svarði um hæl: „Engin strengjabrúða. Þú ert strengjabrúðan.“

„Getur rifið barnið úr kviði móðurinnar“

Þótt kosningabaráttan hafi hingað til þótt eitruð, náðu frambjóðendurnir að hefja kappræðurnar á nokkuð málefnalegum nótum, borið saman við síðustu viðureignir.

Þau voru spurð um sýn sína á Hæstarétt Bandaríkjanna, þar sem Clinton sagði kosningarnar í raun snúast um „hvers konar land við viljum vera“.

Þá ítrekaði hún að réttindi samkynhneigðra og kvenna mætti ekki skerða á ný.

Trump sagði Hæstarétt vera það sem þetta snýst allt saman um. Lofaði hann að skipa dómara sem væru andsnúnir fóstureyðingum sem myndu einnig verja rétt Bandaríkjamanna til vopnaburðar.

„Ef þú ferð eftir því sem Hillary er að segja, þá geturðu tekið barnið og rifið barnið út úr kviði móðurinnar, rétt fyrir fæðingu barnsins,“ sagði Trump.

„Að notast við þess háttar hræðsluáróður er bara skelfilega óheppilegt,“ svaraði Clinton.

mbl.is fylgdist með kappræðunum í beinni 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert