Samdi tónlist sérstaklega fyrir ketti

Sellóleikarinn David Teie er með harla óvenjulega áheyrendur í huga á nýjasta diski sínum. Þeir eru ferfættir, loðnir og láta ánægju sína í ljós með því að mala. Teie sendi á dögunum frá sér fyrsta diskinn sem er saminn alfarið með ketti í huga.

Tónlistin virðist líka vekja nokkra hrifningu hjá ferfættu áheyrendunum 13 á kattakaffihúsinu Lady Dinah‘s Cat Emporium, en sjálfur er tónlistarmaðurinn með ofnæmi fyrir köttum.

Tónlistin á diskinum „Music for Cats“ byggir í grunninn á mali og sambærilegum hljóðum og er innblásturinn sóttur í þau hljóð sem kettlingar heyra líkt og fuglasöng og mal móður sinnar.

 „Ég er með ein 26 hljóðfæri sem gefa frá sér mismunandi malhljóð,“ hefur AFP fréttastofan eftir Teie sem er tónlistakennari við háskólann í Maryland.

„Auk þess nota ég tíu hefðbundin hljóðfæri, en hljóðunum hefur flestum verið breytt í tölvu til að líkja eftir dýrahljóðum,“ segir hann. „Ég taldi að ef að ég semdi tónlist sem köttum líkar en eigendum þeirra finnst vera pirrandi þá muni þeir ekki spila hana, þannig að ég tvinnaði þetta saman við tónlist sem fólki finnst það geta að hlusta á og í raun er þetta líka róandi fyrir manneskjur.“

Lauren Pears, sem á kattakaffihúsið, segir tónlist Teie ekki ósvipaða þeirri sem hún spili venjulega á kaffihúsinu. Fyrst í stað efaðist hún um að kettirnir myndu sýna tónlistinni áhuga, en þeir reyndust vera forvitnir og áhugasamir.

„Þeir eru búnir að vera að fylgjast með honum í allan morgun og virðast vera virkilega áhugasamir,“ sagði Pears.

Um sjö milljón kettir búa í Bretlandi og er talið að kattaeigendur eyði um 5 milljörðum punda í þessa ferfættu félaga árlega.

Teie ætlar þó ekki að takmarka sig við ketti. „Ég er byrjaður að semja tónlist fyrir hesta og er tilbúin að hefja upptökur. Svo er ég að rannsaka tónlist fyrir hunda og þeir eru næstir í röðinni. Það verður hins vegar nokkur áskorun, af því að tónlist fyrir Chihuahua og Labrador er mjög ólík.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert