Áskilja sér rétt til að endurskoða afstöðu sína til sjálfstæðis

Skotar áskilja sér rétt til að endurskoða afstöðu sína til …
Skotar áskilja sér rétt til að endurskoða afstöðu sína til sjálfstæðis, ef breskum stjórnvöldum tekst ekki að semja um traust tengsl við Evrópusambandið í kjölfar Brexit. AFP

Heimastjórnin í Skotlandi heur birt drög að frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði. Um er að ræða plan B ef ekki tekst að tryggja áframhaldandi tengsl við Evrópusambandið og aukið sjálfræði í viðræðum Breta og ESB vegna Brexit.

Samkvæmt frumvarpinu verður ríkisborgurum aðildarríkja Evrópusambandsins, sem búsettir eru í Skotlandi, heimilt að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni en þeir voru útilokaðir frá atkvæðagreiðslunni um framtíð Bretlands innan Evrópusambandsins.

Skotar ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2014 að vera áfram hluti af Bretlandi, með 55% atkvæða. Hins vegar vildu 62% Skota vera áfram innan Evrópusambandsins þegar gengið var til þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit í júní sl.

Frumvarpið sem nú hefur verið lagt fram er í meginatriðum samhljóða því sem Skotar greiddu atkvæði um 2014. Spurt verður: „Ætti Skotland að vera sjálfstætt ríki?“

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, segir að í kjölfar atkvæðagreiðslunnar um Brexit standi Skotar andspænis óásættanlegri áhættu. Hún segir heimastjórnina hins vegar reiðubúna til að vinna með breskum stjórnvöldum að því að tryggja tengslin við Evrópusambandið til framtíðar.

„Ef það kemur hins vegar í ljós að hagsmunum Skotlands verður eingöngu borgið með sjálfstæði verður skoska þjóðin að fá tækifæri til að endurskoða þá spurningu, og gera það áður en Bretland gengur úr Evrópusambandinu,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert