Sýknaður af Tinder-morði

Warriena Wright og Gable Tostee kynntust á Tinder.
Warriena Wright og Gable Tostee kynntust á Tinder. AFP

Gable Tostee, þrítugur Ástrali, hefur verið sýknaður af morðákæru vegna dauða Warriena Wright, 26 ára nýsjálenskrar konu sem féll af svölum á heimili hans í Gold Cost í Queensland í ágúst 2014. BBC greinir frá þessu. 

Tostee og Wright kynntust í gegnum stefnumótasmáforritið Tinder og voru á sínu fyrsta stefnumóti þetta kvöld. Wright var í fríi í Ástralíu.

Saksóknari í málinu færði rök fyrir því að Tostee hefði ógnað Wright með þeim hætti að eina leið hennar til að koma sér í burtu hefði verið með því að klifra niður á næstu hæð í gegnum svalir hans, sem eru á 14. hæð. Við þá tilraun hafi hún hins vegar fallið með þeim afleiðingum að hún lést.

„Þú ert hepp­in að ég er ekki bú­inn að kasta þér fram af svöl­un­um“

Lykilsönnunargagn í málinu var 199 mínútna löng upptaka sem tek­in var á síma Tostee. Á henni heyr­ast áköf rifr­ildi en ákæru­valdið hélt því fram að Tostee hafi reiðst Wright þegar hún kastaði skraut­stein­um að hon­um og lamdi til hans með sjón­auka. Á upp­tök­unni heyr­ist Tostee segja: „Þú ert hepp­in að ég er ekki bú­inn að kasta þér fram af svöl­un­um. Ef þú reyn­ir eitt­hvað kýli ég þig kalda.“

Sak­sókn­ar­inn í mál­inu sagði Tostee hafa þrengt að hálsi Wright og haldið henni en síðan læst hana úti á svöl­un­um. Upptakan sýni því fram á sekt hans. Lögmenn Tostee héldu því hins vegar fram að upptakan sannaði sakleysi hans. Wright hafi sýnt óskynsamlega hegðun með því að reyna að klifra niður af svölunum. 

Athygli vekur að eftir fallið yfirgaf Tostee íbúð sína og upptökur úr ör­ygg­is­mynda­vél­um sýna Tostee ráfa um göt­urn­ar í nágrenninu og inn í garð áður en hann keypti sér pítsusneið.

Sjá frétt mbl.is: Fékk sér pítsu eft­ir að kona féll til bana af svöl­un­um hans

Eftir fjóra daga í dómsal komst kviðdómur að þeirri niðurstöðu að Tostee væri ekki sekur um morð eða manndráp. Nick Dore, aðalverjandi Tostee, sagði í samtali við fjölmiðla fyrir utan dómsal að skjólstæðingi hans væri létt yfir að málið væri að baki og að hann hlakkaði til að halda áfram með líf sitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert