Barnið sem fæddist tvisvar

Lynlee litla í fangi móður sinnar.
Lynlee litla í fangi móður sinnar. Ljósmynd/Texas Children's Hospital

Þegar Margaret Boemer fór í sextán vikna ómskoðun á sjúkrahúsi í Texas kom í ljós að stórt æxli hafði myndast við rófubein fóstursins. Æxlið kallast sacrococcygeal teratoma og er það algengasta sem myndast hjá fóstrum, þó mjög sjaldgæft sé.

Boemer hafði fengið aðrar slæmar fréttir fyrr á meðgöngunni. Upprunalega gekk hún með tvíbura en hafði misst annað fóstrið  á fyrstu vikunum.

Læknirinn Darrell Cass segir í samtali við CNN að stundum geti fóstrið lifað með æxlið og að það sé svo fjarlægt þegar barnið fæðist. En oft stækkar það svo hratt að það truflar verulega blóðrás fóstursins og skapar mikla hættu á fósturláti. Cass útskýrir að í raun „sjúgi“ æxlið blóð frá fóstrinu. Á sama tíma er fóstrið að reyna að þroskast og stækka. „Og stundum sigrar æxlið og hjartað getur ekki meir,“ segir Cass við CNN.

Gáfu henni möguleikann á lífi

Fóstrið varð sífellt veikara og ljóst var að eitthvað varð að gera. Einhverjir læknar ráðlögðu móðurinni að fara í fóstureyðingu en Cass og hans teymi stakk upp á öðrum möguleika: Skurðaðgerð.

Slíkar aðgerðir eru ávallt mjög áhættusamar en útlit var fyrir að ef ekkert yrði gert myndi Boemer missa fóstrið.

Fóstrið var orðið 23 vikna gamalt. Æxlið var orðið svo stórt, jafnstórt fóstrinu, að það olli hjartsláttartruflunum. „Hún átti ekki mikla möguleika,“ segir Boemer sem vissi þá að hún gengi með stúlku. „En við ákváðum að gefa henni möguleika á lífi.“

Þegar fóstrið var 23 vikna og 5 daga gamalt gerði Cass aðgerð á því. Skurðaðgerðin tók fimm klukkustundir í heildina. Aðgerðin á sjálfu fóstrinu má ekki taka langan tíma, aðeins um 20 mínútur. Það er gert þannig að fóstrið liggur en í leginu á meðan aðgerðin fer fram. En í þessu tilviki var æxlið svo stórt að taka þurfti fóstrið út. „Þetta endaði þannig að fóstrið var úti, alveg úti,“ segir Cass við CNN.

Læknateyminu tókst að fjarlægja æxlið að mestu. Fóstrið var svo sett aftur í legið og því lokað með saumi eins vel og hægt var. „Það er ein tegund kraftaverks að hægt sé að opna leg með þessum hætti og loka því aftur og allt virkar áfram,“ segir Cass um aðgerðina.

Boemer var rúmföst það sem eftir var meðgöngunnar. Hún gekk með barnið í 12 vikur eftir aðgerðina. Í 36. viku var stúlkan svo tekin með keisaraskurði. Það var þann 6. júní.  Hún fékk nafnið Lynlee.

Lynlee litla þurfti að gangast undir aðra skurðaðgerð viku gömul þar sem það sem eftir var af æxlinu var fjarlægt. Allt gekk vel og nokkrum dögum seinna var hún komin heim með fjölskyldunni.

Læknirinn segir að stúlkan sé heilbrigð.

Þetta er í annað sinn sem Cass gerir svona aðgerð á fóstri. Fyrra barnið er orðið sjö ára og heilsast vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert