Bolt finnur til með börnunum

Usain Bolt ætlar ekki að láta sitt eftir liggja við …
Usain Bolt ætlar ekki að láta sitt eftir liggja við að aðstoða þá sem eiga um sárt að binda á Haítí. AFP

Góðgerðarsamtök spretthlauparans Usains Bolt hafa gengið til liðs með mannúðarsamtökum sem sinna fórnarlömbum fellibylsins Matthews á Haítí. Í stað þess að gefa peninga ætla samtökin að fjármagna kaup fyrirtækja á hreinu vatni og mat.

„Við fyllumst sorg að heyra um eyðilegginguna sem fellibylurinn Matthew olli á Haítí,“ segir Bolt en hann er frá nálægri eyju, Jamaíka.

Bolt segist hafa tekið það sérstaklega nærri sér að heyra af börnum sem eigi um sárt að binda og hafi m.a. misst foreldra sína og heimili sín. „Við verðum að gera okkar til að hjálpa börnum Karíbahafsins.“

Tvær vikur eru síðan Matthew fór yfir Haítí og skildi eftir sig slóð eyðileggingar. Hundruð létust og enn er margra saknað. Talið er að um ein og hálf milljón íbúa séu í sárri neyð. En eitthvað stendur á aðstoðinni. Sameinuðu þjóðirnar segja að verulega vanti upp á fjármögnun neyðaraðstoðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert