Dreifa hreinu vatni skammt frá Mosúl

Vatnið kemur sér afar vel.
Vatnið kemur sér afar vel. Ljósmynd/UNICEF

Starfsfólk Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, er komið til bæjarins Al Houd, suður af borginni Mosúl, þar sem það dreifir hreinu vatn til fjölskyldna.

„Þetta þýðir að á einni viku tekst okkur að hjálpa 3.000 börnum og fjölskyldum þeirra sem eru fórnarlömb hræðilegra átaka sem hafa náð yfir stóran hluta Íraks,“ sagði fulltrúi UNICEF í Írak.

„Þetta virðist kannski vera lítið afrek en það mun samt hjálpa þeim börnum og fjölskyldum sem hafa þegar þurft að ganga í gegnum mikla erfiðleika.“

Frétt mbl.is: Stríðandi fylkingar verndi börnin

Frá afhendingu vatnsins í Írak.
Frá afhendingu vatnsins í Írak. Ljósmynd/UNICEF

Ríki íslams tók húsið 

Íraska konan Zainab flúði frá al Houd með fjórar dætur sínar tveimur dögum áður en íraskar hersveitir réðust þangað inn. Þau höfðu verið undir valdi Ríkis íslams í um tvö ár. Það skiptir miklu máli fyrir hana að fá hreint vatn og hreinlætisþjónustu.

„Mig langar að fara heim til fjölskyldunnar minnar, fara með börnin mín í skólann og eiga föt handa fjölskyldunni minni,“ sagði hún í tilkynningu frá UNICEF.

Þegar Ríki íslams náði völdum í þorpinu hennar tóku liðsmenn samtakanna húsið hennar og notuðu það sem skrifstofu. Undanfarin tvö ár hafa hún og börnin hennar búið hjá ættingjum.

„Við vorum hrædd, hungruð og liðum skort allan tímann. Ég var hrædd um börnin mín vegna þess að ég á fjórar stelpur og var hrædd um að þeir myndu taka þær eins og þeir gerðu í hinum þorpunum,“ sagði hún.

„Sonur minn sem er aðeins sex ára var ekki tekinn í burtu. En eldri strákarnir voru teknir og þjálfaðir fyrir bardaga eða fengnir til að vera uppljóstrarar.“

Heimsforeldrar styðja neyðaraðgerðir UNICEF fyrir Mosúl og nágrenni. Á Íslandi eru vel yfir 25 þúsund heimsforeldrar.

.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert