Sætir drykkir auka hættuna á sykursýki

Neysla meira en tveggja sætra drykkja á dag tvöfaldar hættuna …
Neysla meira en tveggja sætra drykkja á dag tvöfaldar hættuna á sykursýki. Thinkstock / Getty Images

Neysla meira en tveggja sætra drykkja á dag eykur verulega hættuna á sykursýki og skiptir þá engu hvort um er að ræða drykki sem innihalda sykur eða gervisætuefni.

Þetta kemur fram í rannsókn sænskra vísindamanna við Karolinska Institute, sem sýndi fram á að þeir sem neyta meira en tveggja 200 ml eininga af sætum drykkjum á dag tvöfalda hættuna á að þróa með sér sykursýki 2. Neysla fimm eininga af sætum drykk daglega meira en tífaldar hættuna.

Neysla gosdrykkja eykur einnig hættuna á sjaldgæfari gerð sykursýki hjá fullorðnum einstaklingum, svo nefndri Lada sykursýki sem deilir einkennum með sykursýki 1, sem er sjálfsónæmissjúkdómur og sykursýki 2, sem er lífsstílsjúkdómur.

Vísindamennirnir rannsökuðu gosdrykkjaneyslu hjá 2.874 fullorðnum einstaklingum og báru saman við þróun sykursýki. „Við vorum hissa á að sjá aukna hættu á þróun sjálfsónæmis sykursýki samfara gosdrykkjaneyslu. Næst ætlum við að rannsaka hvernig hægt er að draga úr þessari hættu, til dæmis með neyslu á feitum fiski,“ hefur breska dagblaðið Guardian eftir dr. Josifin Edwall Lofvenborg sem stjórnaði rannsókninni.

„Við erum að skoða þetta núna með því að nota tölulegar upplýsingar frá átta ólíkum löndum víðsvegar um Evrópu.“

„Neysla gosdrykkja kann að auka hættuna á bæði sykursýki 2 og Lada sykursýki með því að hafa áhrif á insúlín næmni og glúkósa efnaskipti,“ segir í niðurstöðum vísindamannanna sem birtar voru í fagtímaritinu European Journal of Endocrinology.

Talið er að einn af hverjum 11 einstaklingum í heiminum sé með sykursýki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert