Þúsundir misstu heimili sín

Haima fór yfir svæði í nágrenni höfuðborgarinnar Manila. Aurskriður og …
Haima fór yfir svæði í nágrenni höfuðborgarinnar Manila. Aurskriður og vatnavextir fylgdu. AFP

Þúsundir Filippseyinga hafa misst allt sitt eftir að fellibylurinn Haima gekk yfir eyjarnar á miðvikudag. Bylurinn er einn sá öflugasti sem um getur á svæðinu. Vindhraðinn var svipaður og í hinum alræmda Haiyan árið 2013. Bylurinn sá varð 7.400 manns að bana. Vitað er að Haima varð að minnsta kosti átta að bana á miðvikudag.

Hungraðir eyjaskeggjar bíða nú eftir aðstoð í neyðarskýlum. Verst er ástandið á eyjunni Luzon.

„Ég grét þegar ég sá akrana mína eyðileggjast í veðrinu,“ segir Leonardo Longan. „Veðrið feykti mangótrjánum mínum um koll.“

Líkt og margir nágrannar hans býr Longan núna með fjölskylduna í neyðarskýli. Skýlið er búið til úr teppum og greinum pálmatrjáa. Longan og eiginkonan sendu börn sín fjögur til ættingja sem sluppu undan veðrinu. Sjálf hafa þau þurft að fá lánuð hrísgrjón til að hafa eitthvað að borða.

Herflugvél með neyðargögn var flogið inn á svæðið í dag en í bæ Longan, þar sem 42 þúsund manns búa, hefur engin slík hjálp enn borist.

Margir hafa þurft að sofa undir berum himni. „Enginn hefur hjálpað okkur. Það erum bara við og aðrar fjölskyldur sem hjálpumst að eins og við getum, hérna í vegkantinum," segir Jovy Dalupan, tveggja barna móðir. Dætur hennar eru átta mánaða og fjögurra ára gamlar. Þær eru komnar með mikinn hósta. Engin þurr föt er að finna.

 Átta manns létust í aurskriðum sem fylgdu ofsaveðrinu. Enn er einhverra saknað. Ár hafa flætt yfir bakka sína og hrifið með sér hús og fólk.

Fjarskipti liggja niður á hluta eyjarinnar sem verst varð úti og því er ekki hægt að leggja heildarmat á mannfall og skaða sem veðrið olli.

Stór svæði í nágrenni höfuðborgarinnar Manila eru enn á kafi í vatni. Á þeim svæðum hafa að minnsta kosti 40 þúsund íbúar þurft að flýja til fjalla.

Á hverju ári skella um 20 fellibylir á Filippseyjum. Margir þeirra eru mannskæðir.

Fellibylurinn Haiyan gerði mikinn usla á eyjunum í nóvember árið 2013. Hann fór yfir mjög fjölmenn svæði  og varð mannfallið því mikið.

Haima er nú komin til Hong Kong.
Haima er nú komin til Hong Kong. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert