Aukin öryggisgæsla í Lundúnum

Öryggisgæsla við samskiptamiðstöðvar í Lundúnum hefur verið stóraukin.
Öryggisgæsla við samskiptamiðstöðvar í Lundúnum hefur verið stóraukin. AFP

Öryggisgæsla hefur verið aukin í neðanjarðarlestarkerfi Lundúnar eftir að 19 ára karlmaður var handtekinn í kjölfar þess að grunsamlegur hlutur fannst í einni lestanna. „Almenningur mun sjá fleiri lögreglumenn, þ. á m. vopnaða lögreglumenn, við og á samgöngumiðstöðvum,“ sagði talsmaður Scotland Yard í samtali við AFP.

Vopnuð lögregla handtók hinn 19 ára mann í Lundúnum á föstudag á grundvelli hryðjuverkalaga, vegna fyrrnefnds hlutar sem fannst í lest á fimmtudag. Lögregla notaði rafbyssu til að yfirbuga manninn á verslunargötu en hleypti ekki af öðrum vopnum.

Maðurinn er grunaður um að leggja á ráðin um hryðjuverkaárás og er í gæsluvarðhaldi.

Hluturinn, sem fannst í lest við North Greenwich-lestarstöðina sem þjónustar O2-hvelfinguna, er nú til rannsóknar.

Viðbúnaðarstigið í Bretlandi hefur verið „alvarlegt“ frá því í ágúst 2014, en það þýðir að líklegt þykir að hryðjuverkaárás sé yfirvofandi.

The Times talaði um hinn grunaða sem „lone wolf“, hugtak sem notað er um einstaklinga sem skipuleggja hryðjuverk upp á eigin spýtur, og sagði menn óttast að um hefði verið að ræða fyrstu raunverulegu sprengjuógnina gegn samgöngukerfi borgarinnar í tíu ár.

Scotland Yard neitaði að tjá sig um fregn Times.

Farþegar bíða í röðum eftir að lestarstöðin við flugvöll borgarinnar …
Farþegar bíða í röðum eftir að lestarstöðin við flugvöll borgarinnar var rýmd í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert