Berst við Ríki íslams á öldum ljósvakans

Írakar sem hrakist hafa frá heimilum sínum í átökunum eru …
Írakar sem hrakist hafa frá heimilum sínum í átökunum eru hér aftan á flutningabíl á leið í flóttamannabúðir í bænum Qyayarah, suður af Mósúl. AFP

Hörð átök eiga sér stað ekki langt frá stúdíói Mohamad Al Mawsily þar sem íraski herinn ásamt bandamönnum sínum á í blóðugri baráttu við að ná borginni Mósúl úr höndum hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams. Staðsetning stúdíósins er leynileg að því er segir á fréttavef CNN, en úr stúdíóinu heyr Al Mawsily sína eigin baráttu gegn hryðjuverkasamtökunum. Sú barátta er þó ekki háð með byssum eða flugskeytum, heldur tónlist og sannleikanum.

Ári eftir að Ríki íslam tók yfir Mósúl og Nineveh héraðið ákváðu Al Mawsily og tveir félagar hans að stofna útvarpsstöð fyrir þá milljón íbúa sem eru innlyksa í borginni. Útvarpsstöðina skýrðu þeir Alghad, eða Morgundaginn, í von um betri og bjartari tíma.

Alghad FM ögrar hryðjuverkasamtökunum með útsendingum sínum og því þarf að halda stöðinni leyndri, m.a. nöfnum starfsmanna. Þannig er Al Mawsily ekki raunverulegt nafn heldur þýðir það einfaldlega „frá Mósúl“ og foreldrar útvarpsmannsins unga fengu upphaflega ekki einu sinni að vita að hann hefði stofnað stöðina.

Útvarpsstöðin leið til að vera í sambandi við ástvini

„Þetta er ein leið fyrir okkur til að vinna á umsátri Ríkis íslams,“ sagði Al Mawsily við fréttamann CNN. Á stöðinni er að hefjast útvarpsþátturinn „Láttu í þér heyrast“ spjallþáttur sem minnir um margt á marga aðra, utan þess að þeir sem hringja inn eru flestir frá borg þar sem umsátursástand ríkir í. „Við eigum trygga hlustendur á óvenjulegum tímum og í óvenjulegum aðstæðum. Það er mikilvægt að brjóta hugmyndafræði Ríkis íslams á bak aftur. Þeir vilja að fólk treysti ekki hvert öðru.“

Meðal hlustenda er fólk frá Nineveh héraðinu sem hrakist hefur frá heimilum sínu vegna átakanna og býr því nú annars staðar í Írak, eða sem flóttamenn í Evrópu, Ástralíu og Bandaríkjunum og sem fylgist með stöðinni í gegnum netið.

„Við höfum þróað mósúlskt samfélag,“ sagði Al Mawsily. „Útvarpsstöðin er þeirra leið til að vera í sambandi við ástvini sína.“

Flúði Mósúl klukkan tvö að nóttu

Þegar Ríki íslams tók Mósúl, aðra stærstu borg Íraks yfir, slitu þeir á öll tengsl borgarbúa við umheiminn. Gervihnattasjónvarp, internetið, tónlist, bækur og allt það sem ekki var í samræmi við stefnu samtakanna var bannað, jafnvel farsímar, þó ekki hafi allir íbúar hlýtt þeirri skipan.

Hundruð þúsund íbúa Mósúl, m.a. Al Mawsily, flúðu borgina og þær ströngu refsingar sem fylgja því að brjóta túlkun samtakanna á sharía lögunum.

Al Mawsily man vel þann dag í júní 2014 þegar vígamenn samtakanna óku inn í Mósúl veifandi svörtum fánum og Kalashnikkov rifflum. Hann henti nokkrum flíkum ofan í tösku og flúði klukkan tvö að nóttu ásamt foreldrum sínum í átt að kúrdísku landamærunum. 

„Sérhver Mósúlbúi sem hringir í þáttinn tekur áhættu“

Al Mawsily veit að hann var heppinn að komast á brott og fannst hann þurfa að gera eitthvað sem héldi lífi í borginni gagnvart umheiminum og gera íbúum kleift að brjótast í gegnum ritskoðun og áróður Ríkis íslams.

Hann stofnaði því útvarpsstöðina Alghad og fór að útvarpa tónlist og fréttaskýringum þar sem túlkun Ríkis íslams á íslamstrú var dregin í efa, sem og valdi kalífanna. Á útvarpsstöðinni var fjallað um þær skoðanir og athuganir Mósúlbúa sem drógu í efa útgáfu Ríkis íslams af lífinu í borginni og nú í áhlaupi Írakshers á borgina birtir hann reglulega fréttir af gangi mála og fær staðfestingar frá íbúum og hermönnum hvernig gangi.

„Sérhver Mósúlbúi sem hringir í þáttinn tekur áhættu,“ sagði Al Mawsily. „Hann hættir á dauða“

Honum sjálfum hafa einnig borist líflátshótanir, en hann segir íbúum Mósúl miklu meiri hætta búin og telur það heiður að þeir séu tilbúnir að taka slíka áhættu með því að hringja inn í þáttinn.

„Þegar ég sofna á kvöldin þá finnst mér ég hafa gert eitthvað,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert