Hinir særðu bíða enn átekta

Reyk leggur frá íbúðahúsi í Aleppo á fimmtudag, en þá …
Reyk leggur frá íbúðahúsi í Aleppo á fimmtudag, en þá brutust út átök á því svæði þar sem fólk átti að geta komið sér í burt. AFP

Hundruð særðra borgara sitja fastir á svæðum undir stjórn uppreisnarmanna í Aleppo, eftir að Sameinuðu þjóðirnar mátu það svo að ekki væri hægt að senda sveitir inn til að flytja þá á brott vegna óöruggs ástands.

Rússar hafa nú framlengt vopnahléð fram á þriðja dag en hin einhliða „mannúðarpása“ linnulausra árása hersveita sýrlenska stjórnarhersins og rússneskra árásarþota hefur haldið að mestu frá því að hún hófst á fimtmudag.

Sýrlenski herinn hefur sagt að um sé að ræða tækifæri fyrir borgara, og þá uppreisnarmenn sem vilja leggja niður vopn, til að koma sér í burtu af átakasvæðum í Aleppo. Hins vegar hafa engir skipulagðir flutningar á fólki getað farið fram og aðeins tugir 250.000 íbúa þess hluta borgarinnar sem enn er á valdi uppreisnarmanna hafa getað komið sér undan.

Ljósmyndari AFP í Bustan al-Qasr sagði að mannlaust væri á þeim stað þar sem herinn hefur auglýst að borgarar geti komið sér á burt með öruggum hætti. Eftir þriggja mánaða umsátur sýrlenska hersins og sprengjuárásir rússneska lofthersins er tiltrúin á loforðum þeirra takmörkuð.

Á föstudag ákvað mannréttindaráð SÞ að láta fara fram sérstaka rannsókn á aðgerðum í Aleppo, í ályktun sem er afar gagnrýnin í garð stjórnvalda í Damaskus.

Sameinuðu þjóðirnar höfðu vonast til að geta nýtt vopnahléið til að koma særðum á brott og flytja aðföng á þau svæði þar sem þeirra er þörf en fleiri en 2.000 hafa særst frá því aðgerðir hófust og og nærri 500 hafa látist.

Á föstudag sagði talsmaður SÞ hins vegar að fyrirætlanir hefðu ekki gengið eftir af öryggisástæðum.

Rússar hyggjast styrkja herafla sinn í Sýrlandi en þangað stefnir …
Rússar hyggjast styrkja herafla sinn í Sýrlandi en þangað stefnir eina flugmóðurskip rússneska hersins, auk fjölda annarra fleyja. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert