Loftárásir hafnar á ný í Aleppo

Átök eru nú hafin á ný í Aleppo eftir þriggja …
Átök eru nú hafin á ný í Aleppo eftir þriggja daga vopnahlé. AFP

Átök eru nú hafin á ný í Aleppo eftir þriggja daga vopnahlé og segir á fréttavef BBC að skothljóð og sprengingar heyrist nú á ný í borginni.

Stjórnvöld í Rússlandi lýstu fyrr í vikunni yfir einhliða yfir vopnahléi „af mannúðarástæðum“ eftir harðar árásir rússneska hersins og sýrlenska stjórnarhersins á borgina undanfarnar vikur.

Samtökin Syrian Observatory for Human Rights, sem staðsett eru í Bretlandi og sem fylgjast með ástandi mannúðarmála í Sýrlandi, sögðu loftárásir hafa verið gerða á borgina í kvöld.

Þau hafa einnig lýst yfir áhyggjum af því að ekki tókst að koma hjálpargögnum til borgarbúa, né heldur að flytja þá sem særst hafa í árásunum á brott frá austurhluta borgarinnar á meðan að á vopnahléinu stóð.

Ismail al-Abdullah, einn af íbúum Aleppo sem starfar með sjálfboðaliðasamtökunum Hvítu hjálmunum, sagði BBC að hann hefði orðið vitni að sprengjuárásum við víglínuna og þá hefði hann einnig orðið var við leyniskyttur eftir að vopnahléinu lauk.

Sameinuðu þjóðirnar greindu frá því í gær að ekki væri hægt að tryggja öryggi hjálparsveita og þess vegna hefði orðið að fresta áætlunum um að flytja særða íbúa á brott frá borginni.

Rússnesk stjórnvöld og sýrlenska stjórnin hvöttu hins vegar íbúa til að nýta sér vopnahléið til að yfirgefa borgina. „Enginn hefur farið,“ sagði Zakaria Malahifji, sem tilheyrir Fastaqim uppreisnarsamtökunum, sem segja engan hafa í raun átt mögulega á að yfirgefa borgina. „Sá litli hópur fólks sem reyndi að fara varð fyrir sprengikúlum við útgöngusvæðið og gat því ekki farið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert