Minningarnar ríma ekki við veruleikann

Bataclan mun opna aftur í nóvember.
Bataclan mun opna aftur í nóvember. AFP

Sumir stóðu sem steinrunnir, aðrir grétu. Allir áttu það þó sameiginlegt að vilja rjúfa vítahring óttans. „Þegar ég yfirgaf Bataclan sá ég það fyrir mér eins og blóðþyrst skrýmsli sem vildi gleypa mig,“ segir Caroline Langlade. Hún var ein þeirra sem horfði á hryðjuverkamenn myrða tugi tónleikagesta 13. nóvember sl.

Alls létust um 90 í Bataclan þennan dag en áður en yfir lauk höfðu morðingjarnir myrt 130 manns, víðsvegar um París. Þeir sem komu lífs af, snéru aftur í tónleikahúsið á dögunum.

„Í raun er þetta bara herbergi með veggjum, þar sem eitthvað átakanlegt átti sér stað,“ segir Langlade, „það er ekki byggingin sjálf sem er sorgleg.“

Þegar þrímenningar með Kalashnikov-riffla brutu sér leið inn í tónleikasalinn þar sem bandaríska hljómsveitin Eagles of Death Metal voru að spila, leituðu Langlade og 40 aðrir skjóls í herbergi á efri hæð.

Nú þegar hún snýr aftur, kemur það henni á óvart að stiginn sem hún hljóp upp í skelfingu sinni er ekki úr tré og ekki hringlaga, eins og hana minnti.

„Hann reyndist eins og hann hefur alltaf verið; úr steypu og þráðbeinn.“

Fólk leitar huggunar skammt frá Bataclan.
Fólk leitar huggunar skammt frá Bataclan. AFP

Annar eftirlifenda, hin 28 ára Maureen, sem vildi ekki gefa fullt nafn, upplifði svipaða tilfinningu: „Salurinn var ekki eins og þegar ég skildi við hann. Neyðarútgangurinn var bara í sjö metra fjarlægð en í minningunni virtist fjarlægðin óendanleg.

Ég fór þangað aftur. Ég þurfti þess ekki en það virkar eins og sigur yfir því sem við gengum gegnum þennan dag.“

AFP ræddi við eftirlifendur, eftir að 260 manna hópur heimsótti Bataclan fyrr í þessum mánuði. Smærri hópur, sem taldi 130 manns, snéri aftur á vettvang hroðaverksins í mars.

Að endurlifa óttann

Florence Deloche-Gaudez, sem tilheyrir teymi geðlækna sem hefur unnið með fólkinu, segir að margir hafi upplifað róandi áhrif við það að fara aftur á vettvang. Þrátt fyrir að á sama tíma hafi sótt að þeim skelfilegar minningar.

„Það gerði þeim kleift að endurlifa atburðinn og upplifa þessar tilfinningar á ný; hávaðann, lyktina, ásýnd óttans,“ segir hún. „Sumir frusu á meðan aðrir gengu um; röktu aftur þá leið sem þeir fóru þetta kvöld.“

Heimsóknin veitti eftirlifendunum einnig tækifæri til að deila reynslu sinni með öðrum sem upplifðu það sama. „Í mörgum tilfellum var það öryggisstarfsfólk Bataclan, sem svaraði spurningum þeirra,“ segir Deloche-Gaudez.

Að hennar sögn hefur það að heimsækja vettvang dregið úr vanmáttartilfinningunni sem margir upplifa og því áfalli að upplifa dauðann. Heimsóknin fór þannig fram að fólkið fór inn í 5-6 mann hópum, undir eftirliti geðlækna.

Sumir dvöldu á staðnum í allt að klukkustund. Nokkrir kveiktu á kertum og skildu eftir blóm og skilaboð.

Áður en yfir lauk höfðu hryðjuverkamennirnir myrt 130 manns víðsvegar …
Áður en yfir lauk höfðu hryðjuverkamennirnir myrt 130 manns víðsvegar um París. AFP

Bataclan opnar aftur í nóvember, þegar ár er liðið frá hroðaverkunum. Aðstandendur þess segjast hafa freistað þess af fremsta mætti að koma til móts við ýmsar óskir eftirlifenda við enduruppbygginguna.

Að sögn Maureen hjálpaði það henni að heimsæka tónleikahúsið.

„Þegar þú gerir eitthvað svona, þá veistu ekki hvaða gagn það mun gera. Þegar ég kom út fannst mér ég rólegri. Það gæti hljómað óhugnanlega en mér fannst það hjálpa mér í endurhæfingu minni.“

Aðrir eftirlifendur, líkt og hinn 37 ára Anthony, sem vildi heldur ekki ræða við blaðamann undir fullu nafni, sagðist aðeins vilja snúa aftur í tónleikahúsið undir gleðilegum kringumstæðum.

„Ég vil fara aftur og sækja tónleika og pottþétt ekki þegar ég er umkringdur fórnarlömbum,“ sagði hann. „Allir hafa sinn háttinn á við að vinna úr þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert