Vilja beina athyglinni frá Mosúl

Íraskir hermenn handsama mann sem er grunaður um að vera …
Íraskir hermenn handsama mann sem er grunaður um að vera hermaður Ríkis íslams í Kirkuk. AFP

Sérsveit írösku lögreglunnar hefur drepið 48 þeirra sem réðust að írösku borginni Kirkuk í óvæntri árás. Talið er að Ríki íslams standi að baki árásinni.

„48 hryðjuverkamenn íslamska ríkisins hafa verið drepnir í átökunum,“ sagði hershöfðinginn Khattab Omar Aref við AFP-fréttaveituna. Hann bætti því við að sumir hinna látnu hefðu sprengt sjálfa sig í loft upp þegar sérsveitarmenn nálguðust þá.

Kirkuk er undir stjórn Kúrda en í gær var gerð árás á höfuðstöðvar lögreglunnar og herstöðvar í borginni. Talið er að Ríki íslams hafi staðið á bak við þá árás.

„46 okkar manna létust og 133 særðust. Flestir þeirra voru sérsveitarmenn eftir bardaga við liðsmenn Ríkis íslams,“ sagði háttsettur maður úr íraska hernum eftir árásirnar í gær.

Einn árásmanna íslamska ríkisins hélt því fram að árásirnar á Kirkuk væru liður í því að draga athyglina frá Mosúl. Ríki íslams og íraski herinn berjast um borgina. Sér­sveit­ir íraska hers­ins nálg­ast nú Mosúl en hún hef­ur und­an­far­in miss­eri verið á valdi hryðju­verka­sam­tak­anna.

„Árásin í dag var hluti af áætlun til að sýna og sanna að Ríki íslams er komið til að vera og einnig til að sýna að það heldur áfram að stækka. Með þessu er einnig verið að taka pressuna af þeim sem eru í Mosúl,“ sagði einn vígamaður íslamska ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert