Samþykkja minnihlutastjórn á Spáni

Spænskir stuðningsmenn PSOE eru ekki á eitt sáttir með ákvörðun …
Spænskir stuðningsmenn PSOE eru ekki á eitt sáttir með ákvörðun meirihluta leiðtoga flokksins um að lýða minnihlutastjórn íhaldsflokksins (PP) undir stjórn Rajoy. /AFP

Stjórnarandstöðuflokkur sósíalista á Spáni hefur ákveðið að samþykkja minnihlutastjórn íhaldsmanna undir stjórn Mariano Rajoy. Meirihluti leiðtoga sósíalistaflokksins ákvað á fundi sínum í Madríd að sitja hjá þegar þegar kosið verður í þinginu um ríkisstjórn spænska íhaldsflokksins, Partido Pop­ul­ar (PP), undir stjórn Rajoy.

PP sigraði kosningarnar, sem fram fóru bæði í desember og í júní, en til að geta myndað stjórn þurftu sósíalistar að styðja, eða í það minnsta að þola minnihlutastjórn Rajoy. 

Frétt mbl.is: Stærsta spillingamál Spánar um árabil

Rajoy hefur haldið um stjórnartauminn síðan flokkur hans tapaði meirihluta sem hann hafði fyrir kosningarnar í desember en staða flokksins styrktist í endurkosningum sem fram fóru í júní en dugði þó ekki til svo unnt væri að mynda meirihlutastjórn.

Javier Fernandez, forseti framkvæmdastjórnar spænska Sósíalistaflokksins (PSOE), greindi frá ákvörðuninni …
Javier Fernandez, forseti framkvæmdastjórnar spænska Sósíalistaflokksins (PSOE), greindi frá ákvörðuninni á blaðamannafundi í Madríd í dag. /AFP

Sósíalistaflokkurinn, sem betur er þekktur sem PSOE, hlaut næst besta kosningu í báðum kosningum en þetta er í fyrsta sinn í fleiri áratugi sem PSOE eða PP hefur ekki tekist að mynda meirihluta. Flokkarnir hafa hingað til skipst á að leiða ríkisstjórn landsins en í kosningunum í fyrra dreifðust atkvæði milli fjögurra flokka. 

Losuðu sig við Sanchez

Fyrr í mánuðinum ýttu sósíalistar leiðtoga sínum, Pedro Sanchez, út í kuldann þar sem hann neitaði að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um ríkisstjórn, í þeim tilgangi að reyna að koma í veg fyrir að kjósa þurfi í þriðja sinn. Sósíalistar hafa hingað til beitt neitunarvaldi sem hefur komið í veg fyrir að íhaldsflokkurinn (PP) gæti myndað minnihlutastjórn.

Sanchez hefur löngum verið harður andstæðingur Rajoy, sem komst til valda árið 2011 og hefur stjórnartíð hans einkennst af röð spillingarmála að því er fram kemur í frétt AFP.

Nú þegar Sanchez hefur verið ýtt til hliðar af samflokksmönnum sínum féllst meirihluti leiðtoga sósíalistaflokksins á að lýða stjórn íhaldsmanna. Klofningur er þó enn til staðar innan Sósíalistaflokksins.

Frá og með byrjun nóvember munu Spánverjar því loks getað myndað ríkisstjórn, á viðkvæmum tíma í sögu landsins sem nú þarf að rétta úr kútnum í kjölfar efnahagsþrenginga. Halda því sumir fram að stjórn Rajoy, sem nýtur stuðnings 137 þingmanna af þeim 350 sem sitja á þingi, verði veikburða og ekki víst að hún muni halda út kjörtímabilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert