Segir Trump hafa boðið sér milljón

Enn ein konan hefur nú stigið fram og sakað forsetaframbjóðandann Donald Trump um kynferðislegt áreiti. Hún segir að Trump hafi kysst sig og faðmað á góðgerðarsamkomu í Nevada án hennar samþykkis.

Í frétt CNN segir að Jessica Drake sé að minnsta kosti ellefta konan sem ásakar Trump um kynferðislega áreitni. Allar hafa þær stigið fram í kjölfarið á opinberun upptöku frá árinu 2005 þar sem Trump talar illa um konur og segist fara með þær eins og honum sýnist. 

Drake er klámmyndaleikkona og leikstjóri. Hún sagði á blaðamannafundi í Los Angeles í gær að Trump hafi beðið sig um símanúmerið hennar og boðið henni til hótelherbergis síns kvöldið sem þau hittust árið 2006. Hún fór og tók með sér tvær vinkonur sínar þar sem hún vildi ekki fara ein á hans fund. 

„Hann tók þéttingsfast utan um okkur allar og kyssti hverja og eina okkar án þess að fá okkar samþykki,“ sagði Drake á blaðamannafundinum sem hún hélt ásamt lögfræðingi sínum, Gloriu Allred. Allred er þekkt fyrir að vera umbjóðandi kvenna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, m.a. margra fórnarlamba leikarans Bills Cosby.
Drake segist hafa yfirgefið hótelherbergi Trumps stuttu síðar. Hún hafi þá fengið símtal frá honum þar sem hann baða hana koma aftur. Hún neitaði því og þá segir hún hann hafa spurt sig: „Hvað viltu, hversu mikið?“
Drake segirTrump svo hafa boðið sér 10 þúsund dollara, rúmlega 1 milljón króna, og afnot á einkaþotu sinni að auki. 
Jessica Drake ásamt lögmanni sínum, Gloriu Allred, á blaðamannafundi í …
Jessica Drake ásamt lögmanni sínum, Gloriu Allred, á blaðamannafundi í Los Angeles í gær. AFP
Trump hefur ítrekað neitað öllum ásökunum um kynferðislega áreitni. Það gerði framboð hans einnig um ásakanir Drake í gær. Sagði talsmaður hans að sagan væri fáránleg lygi.
Trump sagðist í gær ætla að lögsækja allar konurnar sem hafa ásakað hann. Það ætlar hann þó ekki að gera fyrr en eftir að kosningarnar eru yfirstaðnar þann 8. nóvember. 
Jessica Drake og Gloria Allred sýna mynd af Trump og …
Jessica Drake og Gloria Allred sýna mynd af Trump og Drake. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert