Stöðva verður blóðbaðið

Jean-Marc Ayrault utanríkisráðherra Frakklands talar við blaðamenn á flugvelli í …
Jean-Marc Ayrault utanríkisráðherra Frakklands talar við blaðamenn á flugvelli í Tyrklandi í morgun. AFP

Utanríkisráðherra Frakklands hvetur alþjóða samfélagið til að gera allt sem í þess valdi stendur til að stöðva blóðbaðið í sýrlensku borginni Aleppo. 

Bardagar í borginni héldu áfram í gær eftir að vopnahlé hafði varað í aðeins þrjá sólarhringa. Á þeim tíma tókst mannúðarsamtökum og stofnunum ekki að flytja særða borgara út úr borginni og ekki heldur að koma hjálpargögnum og matvælum til íbúanna. 

„Við erum 150 kílómetra, jafnvel innan við það, frá Aleppo,“ sagði utanríkisráðherrann Jean-Marc Ayrault á fundi í tyrkneska héraðinu Gaziantep í dag. „Og akkúrat núna eru herir að eyðileggja þessa borg og stráfella fólkið.“

Hann segir að til þess að þær milljónir Sýrlendinga sem flúið hafa landið eigi afturkvæmt verði að gera allt til að stöðva blóðbaðið. Taka verði upp friðarviðræður að nýju.

„Við getum ekki náð samkomulagi í sprengjuregni. Stríð er engin allsherjar lausn.“

Ayrault hvatti ennfremur til vopnahlés á nýja leik svo koma megi nauðþurftum til íbúanna og flytja særða úr borginni. Ekki hefur verið hægt að flytja hjálpargögn til Aleppo frá því í byrjun júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert