Átu rottur til að halda sér á lífi

Gíslarnir við komuna á Jomo Kenyatta alþjóðaflugvöllinn í Nairobi. Þeir …
Gíslarnir við komuna á Jomo Kenyatta alþjóðaflugvöllinn í Nairobi. Þeir höfðu þá verið í haldi sómalskra sjóræningja í tæp fimm ár og lagt sér ýmislegt til munns til að lifa af. AFP

Sjómenn sem voru gíslar sómalskra sjóræninga í tæp fimm ár lifðu fangavistina af m.a. með því að leggja sér rottur til munns, að því er fréttavefur BBC hefur eftir einum gíslanna.

Arnel Balbero, sem er filippseyskur sjómaður, sagði gíslana aðeins hafa fengið lítið eitt af vatni að drekka og að þeim hefði liðið eins og „lifandi dauðum“ undir lok fangavistarinnar.

Sjóræningjarnir réðust um borð í skip sjómannanna 26, sem eru frá Kína, Filippseyjum, Kambódíu, Indónesíu, Víetnam og Taívan, árið 2012. Sjómennirnir voru loks látnir lausir nú um helgina, eftir að greitt hafði verið lausnargjald fyrir þá.

Balbero var hluti áhafnar skipsins FV Naham 3 sem var á siglingu út við Seychelles-eyjar þegar það var tekið yfir af sjóræningjunum. Einn áhafnarmeðlimanna var drepinn í áhlaupinu á skipið en hinir voru teknir til fanga. Ári síðar sökk skipið og var þá farið með áhöfnina í land í Sómalíu þar sem tveir áhafnarmeðlimir til viðbótar létust úr veikindum nokkru síðar.

BBC hefur eftir Balbero að honum og hinum í áhöfninni líði eins og lifandi dauðum eftir þrekraun síðustu ára. „Þeir gáfu okkur lítið eitt að drekka og við átum rottur sem við elduðum í skóginum,“ sagði hann þegar hann var spurður um aðbúnað þeirra.

„Við borðuðum hvað sem er. Þegar maður er svangur þá borðar maður.“

Hann sagði erfiðleika nú bíða gíslanna við að aðlagast venjulegu lífi á ný eftir fangavistina. „Ég veit ekki hvernig umheimurinn er núna, þannig að það verður erfitt að komast inn í daglegt líf aftur.“

Talið er að sjómennirnir séu síðustu gíslarnir sem enn voru í haldi sómalskra sjóræningja, eftir öldu sjórána um miðjan síðasta áratug. Verulega hefur dregið úr sjóránum á svæðinu á síðustu árum vegna aukinnar gæslu alþjóðlegra herskipa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert