Flóttabörn í þrælavinnu í Tyrklandi

Úr fréttaskýringaþætti Panorama. Sýrlensku börnin framleiddu m.a. föt fyrir Asos …
Úr fréttaskýringaþætti Panorama. Sýrlensku börnin framleiddu m.a. föt fyrir Asos verslanakeðjuna.

Börn úr röðum sýrlenskra flóttamanna vinna þrælavinnu við að sauma föt fyrir tískuverslanir á borð við Zöru, Mango, Asos og Marks and Spencer. Rannsókn fréttaskýringaþáttarins Panorama, sem sýndur er á BBC, leiddi í ljós að börn flóttamanna eru meðal ólöglegra starfsmanna í fataverksmiðjum í Tyrklandi þar sem vinnutíminn er allt að 12 tímar, launin smánarleg og engar hlífðargrímur eru notaðar við meðhöndlun eiturefna.

Mikið af þeim fatnaði sem seldur er í evrópskum tískuverslunum er framleitt í Tyrklandi. Nálægðin við Evrópu þykir gera Tyrkland að heppilegum framleiðslustað, auk þess sem þar í landi eru menn vanir að fá pantanir sem þarf að afgreiða hratt. Með því móti er hægt að koma nýrri hönnun fyrr í verslanir en ef fötin væru framleidd annars staðar.

Allar verslanirnar sem Panorama ræddi við sögðust fylgjast vel með þeim verksmiðjum sem þær notuðu og að barnaþrælkun fengi ekki að viðgangast.

„Vita að það er verið að arðræna þá“

Áhyggjur fara þó vaxandi af að vinnuaðstæður starfsfólks í tyrkneska fataiðnaðinum séu ekki ásættanlegar og að hluti þeirra sýrlensku flóttamanna sem komið hafa til Tyrklands á undanförnum misserum sé nú í ólöglegri þrælkunarvinnu hjá tyrkneskum verksmiðjum.

Fæstir flóttamannanna eru með vinnuleyfi og grípa því margir þeirra til þess ráðs að vinna ólöglega í vefnaðar- og fataiðnaðinum.

Fréttamaður Panorama ræddi við fjölda sýrlenskra starfsmanna sem sögðust vera arðrændir. „Þeir töluðu um smánarleg laun og hræðilegar vinnuaðstæður. Þeir vita að það er verið að arðræna þá en vita líka að það er ekkert sem þeir geta við því gert,“ sagði Darragh MacIntyre hjá Panorama.

Á vinnustofu í einu af bakstrætum Istanbúl fundu þáttagerðarmenn nokkur sýrlensk börn að störfum og á sama stað lágu frammi framleiðsluprufur fyrir verslanir Asos.

Forsvarsmenn Asos játa að fatnaður fyrir fyrirtækið hafi verið framleiddur í verksmiðjunni en segja verksmiðjuna ekki vera meðal þeirra sem fyrirtækið hafi samþykkt. Að sögn BBC hefur Asos nú látið fara fram úttekt sem leiddi í ljós að þar störfuðu 11 sýrlenskir flóttamenn og þrjú sýrlensk börn, yngri en 16 ára. Asos hefur nú tilkynnt að það muni styðja skólagöngu barnanna og að hinir fullorðnu muni fá greidd laun þar til þeir hafa fundið löglega vinnu.

Úða eiturefnum á gallabuxur án hlífðargrímu

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að sýrlenskir flóttamenn unnu 12 tíma vinnudaga við framleiðslu á gallabuxum fyrir tískuverslanir Mango og Zöru. Voru flóttamennirnir m.a. látnir úða eiturefnum sem notuð eru til að lýsa gallabuxnaefni og voru fæstir þeirra með hlífðargrímu við vinnuna.

Forsvarsmenn Mango segja verksmiðjuna hafa notað undirverktaka án vitneskju fyrirtækisins og að skoðun sem gerð var á verksmiðjunni í kjölfarið hafi sýnt fram á „góðar vinnuaðstæður“ utan nokkurra athugasemda við öryggismál starfsmanna.

Forsvarsmenn Zöru segja innra eftirlit fyrirtækisins hafa þegar framkvæmt úttekt á verksmiðjunni, sem hafi nú frest fram í desember til að gera nauðsynlegar breytingar.

„Kastað burt eins og tusku“

Sjö sýrlenskir flóttamenn voru síðan við störf í þeirri verksmiðju sem Marks & Spencer á í mestu samstarfi við. Launin voru undir 140 krónum á tímann, sem er töluvert undir lágmarkslaunum í Tyrklandi, og fólkið var fengið til starfa í gegnum millilið sem borgaði því í reiðufé.

„Ef eitthvað kemur fyrir Sýrlending er honum kastað burt eins og tusku,“ sagði einn flóttamannanna við Panorama. Yngstur Sýrlendinganna var 15 ára drengur sem vann meira en 12 tíma á dag við að strauja föt áður en þau voru flutt til Bretlands.

Talsmaður Marks & Spencer sagði fyrirtækið taka upplýsingunum „mjög alvarlega“ og hyggst bjóða sýrlensku flóttamönnunum vinnu með löglegum hætti. „Við líðum ekki svona brot á meginreglum okkar og við munum gera það sem við getum til að tryggja að þetta gerist ekki aftur.“

Gagnrýnendur segja verslanakeðjuna þó ekki gera nógu mikið til að bregðast við þeim vandamálum sem fram koma í umfjöllun Panorama.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert