Forskot Clinton á Trump fer vaxandi

Forskot Hillary Clinton á Donald Trump fer nú vaxandi.
Forskot Hillary Clinton á Donald Trump fer nú vaxandi. AFP

Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, hefur nú 12% forskot á Donald Trump, frambjóðanda Repúblikana, í skoðanakönnun sem gerð var fyrir ABC-fréttastöðina. Nýtur Clinton nú stuðnings 50% kjósenda í embætti Bandaríkjaforseta en Trump 38%.

Skoðanakönnunin var gerð eftir að þriðju kappræður þeirra Clinton og Trump fóru fram, en skyndikönnun sem CNN lét framkvæma sýndi að meirihluti aðspurðra taldi Clinton hafa haft betur í kappræðunum.

Clinton hefur 20% forskot á Trump meðal kvenna samkvæmt skoðanakönnun ABC og 3% forskot meðal karla, en karlar hafa verið meirihluti stuðningsmanna Trump alla kosningabaráttuna.

Meiri stuðningur við Clinton virðist þá vera óháður menntunarstigi, þótt munurinn milli frambjóðendanna sé mun minni meðal þeirra sem ekki hafa háskólamenntun. Þar hefur Clinton 3% forskot á Trump en 20% meðal þeirra sem hafa háskólamenntun.

Helstu stuðningsmenn Trump eru líkt og fyrr hvítir karlar sem ekki eru með háskólamenntun og hefur Trump forskot á Clinton meðal þessa hóps. 55% þeirra segjast munu kjósa Trump en 36% Clinton.

Niðurstaðan er í takt við síðustu samantekt CNN-sjónvarpsstöðvarinnar á helstu skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið undanfarið, en vegið meðalgildi þeirra leiðir í ljós að Clinton nýtur stuðnings 48% þeirra sem taka afstöðu en Trump 39%. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert