Hafna „úrslitakostum“ Evrópusambandsins

Paul Magnette, forsætisráðherra Vallóníu.
Paul Magnette, forsætisráðherra Vallóníu. AFP

Ráðamenn í Vallóníuhéraði í Belgíu neituðu í dag að láta undan þrýstingi og leggja blessun sína yfir fríverslunarsamning á milli Evrópusambandsins og Kanada. Samkvæmt belgískum stjórnskipunarlögum geta þarlend stjórnvöld ekki samþykkt samninginn nema fyrir liggi samþykkt héraða landsins. Viðskiptasamningar sambandsins þurfa samþykki allra ríkja þess.

Evrópusambandið hafði gefið Vallóníu frest þar til síðar í dag til þess að samþykkja fríverslunarsamninginn eftir að héraðið neitaði að samþykkja samninginn í síðustu viku. Héraðsþingið hefur hins vegar hafnað því. Paul Magnette, forsætisráðherra Vallóníu, sagði í gær að „úrslitakostir“ sambandsins væru ósamrýmanlegir lýðræðislegum vinnubrögðum. Ráðamenn í Vallóníu hafa meðal annars áhyggjur af hagsmunum héraðsins þegar kemur að landbúnaðarmálum og samkeppni við kanadískar landbúnaðarafurðir.

Til stóð að fríverslunarsamningurinn, sem viðræður hafa staðið yfir um í sjö ár, yrði formlega undirritaður á fundi í Brussel á fimmtudaginn af forystumönnum Evrópusambandsins og Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Fram kemur í frétt AFP að hugsanlega þurfi að aflýsa þeim fundi vegna þeirrar stöðu sem upp er komin. Búist er við að forystumenn sambandsins fundi með belgískum ráðamönnum í dag í von um að finna lausn á deilunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert