Dönsk stjórnmálakona vinsæl í Rússlandi

Marie Krarup, þingkona danska þjóðarflokksins.
Marie Krarup, þingkona danska þjóðarflokksins. Folketinget/Steen Brogaard

Marie Krarup, þingkona og formælandi varnarmála í danska þjóðarflokknum (Dansk Folkeparti), er orðin vinsæl í ríkisfjölmiðlum Rússlands. Skrif hennar og ræður eru þýddar yfir á rússnesku og hefur ein bloggfærsla til að mynda verið lesin yfir 40 þúsund sinnum.

Í frétt Berlingske um málið kemur fram að Krarup hafi lokið námi sem tungumálaliðsforingi í rússnesku og meðal annars unnið sem aðstoðarmaður í danska sendiráðinu í Moskvu. Hún hefur nýverið hlotið mikla athygli í Rússlandi, þar sem ummæli hennar um Rússland eru töluvert ólík ríkjandi viðhorfi annarra stjórnmálamanna í Danmörku og víðar.

Krarup hefur til að mynda talað um Vladimír Pútín Rússlandsforseta sem „tilvonandi samherja“ og sagt að henni finnist stefna Rússlands ekki einkennast af „árásargjarnri hugmyndafræði“.

Aðrir danskir stjórnmálamenn hafa lýst yfir áhyggjum sínum af vinsældum Krarup í Rússlandi. Morten Helveg, sem situr á Evrópuþinginu fyrir Radikale, hefur meðal annars tjáð sig um málið á Twitter, þar sem hann segir „Mjög skaðlegt. Fyrir Danmörku, Evrópu og Vesturlönd. Marie Krarup er orðin að gagnlegum hálfvita fyrir Pútín. Pútín hlýtur að öskra úr hlátri.“

Aðstoðarborgarstjóri Álaborgar vill fullvissa sig um hvað liggur að baki ummælum Krarup um Rússland. Á Twitter spyr hann hana hvort hún geti hafnað orðrómi um að hún fái greitt frá Rússlandi fyrir þessi undarlegu glæfrabrögð. Í viðtali við Berlingske svaraði Krarup spurningunni og sagði meðal annars að hún „gæti keypt sér vodka þar sem hún vildi“. Krarup sagðist einnig vön því að vera kölluð „landráðamaður“ og „hálfviti“ vegna skoðana sinna en að slíkt héldi henni ekki frá því að „segja sannleikann“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert