Drápu 60 í lögregluskóla

Þungvopnaðir öfgamenn, klæddir sjálfsvígsvestum, ruddust inn í lögregluskóla í Pakistan í gær og drápu að minnsta kosti 60 manns og særðu tugi, að sögn lögreglu. Árásin er ein sú mannskæðasta í landinu það sem af er ári.

Þrír vígamenn samtaka sem tengjast talibana-hreyfingunni, ruddust inn í svefnskála lögregluskólans þar sem um 700 nýliðar í lögreglunni gista. Skutu þeir á allt sem fyrir þeim varð og flúðu ungu mennirnir skelfingu lostnir.

„Ég sá þrjá menn klædda í felubúninga með andlitið hulið. Þeir voru vopnaðir Kalashnikovs,“ segir liðsforingjaefni í viðtali við fjölmiðla. „Þeir byrjuðu að skjóta og  komu inn í svefnskálann en mér tókst að flýja yfir vegg,“ bætir hann við.

Árásin var gerð á Balochistan-lögregluskólann um klukkan 23.10 að staðartíma, klukkan 18.10 að íslenskum tíma í gær. Skólinn er í um 20 km fjarlægð austur af Quetta, héraðshöfuðborginni. Skothvellir heyrðust frá skólanum í margar klukkustundir.

Innanríkisráðherra Balochistan-héraðs, Sarfaraz Bugti, segir að árásarmennirnir hafi verið þrír talsins. Sá fyrsti hafti skotið á varðturninn og drepið þá sem þar voru. Þeir hafi síðan haldið inn í bygginguna og skotið á allt sem fyrir þeim varð. Alls létust 60 en 118 særðust. Flestir hinna særðu eru með minniháttar áverka.

Frétt mbl.is: Ruddust inn í lögregluskóla í Pakistan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert