Mótmæla kúgun kirkjunnar

Þúsundir tóku þátt í mót­mæl­um gegn fyr­ir­huguðum breyt­ing­um á lög­um er varða fóst­ur­eyðing­ar í Póllandi í gær annan daginn í röð. Búist er við áframhaldandi mótmælum í Varsjá í dag. „Kirkjan hætti afskiptum af pólitík“ og „Virðið kvenréttindi“ voru á meðal slagorða sem sáust á spjöldum mótmælenda, sem voru svartklæddir og héldu svörtum regnhlífum á lofti. Á sumum þeirra var myllumerkið #svartur mánudagur í Póllandi. 

Frétt mbl.is: Enn mótmælt í Póllandi

Þetta er önnur bylgja mótmæla í landinu, en í byrjun októbermánaðar felldi pólska þingið frum­varp sem banna átti með öllu fóst­ur­eyðing­ar í land­inu eft­ir að pólsk­ar kon­ur efndu til mót­mæla víða um land.

Samkvæmt frumvarpinu, sem rík­is­stjórn Pól­lands lagði fram, var kveðið á um að kon­ur gætu aðeins farið í fóst­ur­eyðingu ef líf móður væri í húfi. Eins að þyngja ætti refs­ing­ar ef fóst­ur­eyðing­ar­lög­in væru brot­in. Þeir sem fram­kvæmdu fóst­ur­eyðing­ar ættu sam­kvæmt frum­varp­inu yfir höfði sér allt að fimm ára fang­elsi.

Nýtt frumvarp er í smíðum og er talið að það sé svipað því sem var fellt í upphafi mánaðarins. Gildandi fóstureyðingalög eru á meðal þeirra ströngustu í Evrópu.

Pólskar konur skrifa undir áskorun til stjórnvalda.
Pólskar konur skrifa undir áskorun til stjórnvalda. AFP

Berjast fyrir jöfnum réttindum

„Núna er [kaþólska]kirkjan að skipta sér af stjórnmálum og lögum. Hún kúgar stjórnmálamenn og skiptir sér af hlutum sem hún hefur ekkert að gera með,“ segir Bozena Przyluska skipuleggjandi. Kamila Majer, einn af skipuleggjendunum, tekur í sama streng og bætir við: „Við erum að berjast fyrir réttlátu ríki. Rétt okkar á getnaðarvörnum, jöfnum launum karla og kvenna ásamt öðru.“

Eftir að fyrra frumvarpið var fellt var haft eftir Jaroslaw Kaczynski, leiðtoga hins íhalds­sama flokks Laga og rétt­læt­is, að enn væri unnið að því að setja lög um fóstureyðingar. „Við mun­um gera allt sem í okk­ar valdi stend­ur til að sjá til þess að jafn­vel þegar meðganga er mjög erfið og ljóst er að barnið deyr muni kon­an fæða barnið þannig að hægt sé að skíra það og jarða,“ sagði Kaczynski.

Aleksandra Sekula kvenréttindaaðgerðarsinni sagði í gær að brýnt væri að halda mótmælunum áfram. Ástæðan væri sú að þrátt fyrir að stjórnvöld hefðu fallið frá fyrra frumvarpinu væri annað í smíðum sem væri „ekki minna fáránlegt og alls ekki ásættanlegt“.

74% Pólverja vilja halda í ríkjandi lög um fóstureyðingar

Núgildandi lög um fóstureyðingar tóku gildi árið 1993 í Póllandi og þykja mjög ströng. Ein­ung­is er heim­ilt að fara í fóst­ur­eyðingu ef kon­ur verða þungaðar eft­ir nauðgun eða sifja­spell. Eins ef heilsa móður er í hættu eða ef fóstrið er mjög af­myndað. Niðurstöður könnunar sem pólska blaðið Newsweek Polska gerði fyrr í mánuðinum sýndu að 74% aðspurðra vildu að lögunum yrði ekki breytt.

Samkvæmt opinberum tölum eru framkvæmdar færri en tvö þúsund fóstureyðingar árlega með löglegum hætti. Mótmælendur segja að árlega fari 100-150 þúsund pólskar konur í fóstureyðingar í útlöndum. Íbúar Póllands eru 38 milljónir.

Justyna Grosel blaðamaður er ein þeirra kvenna sem stigu á svið á Austurvelli í gær. Þakkaði hún íslenskum konum stuðninginn og kraftinn sem þær hefðu veitt pólskum konum í réttindabaráttu sinni þar í landi. Eins og fram hefur komið á mbl.is var haldinn samstöðufundur með pólskum mótmælendum á Austurvelli í byrjun október. 

Grosel seg­ir frum­varpið sem er unnið að nú í Póllandi lýsa hugs­un­ar­hætti og viðhorfi til kvenna sem lík­ist helst því sem tíðkaðist á miðöld­um þegar kon­ur höfðu ekki vald yfir eig­in lík­ama. Hún seg­ir að enn sé langt í land og því verði að berj­ast gegn þessu ríkj­andi viðhorfi sem viðgang­ist í pólsku sam­fé­lagi.

Hún seg­ir þetta snú­ast um kven­rétt­indi í heild sinni. Þau varði all­ar kon­ur, hvar sem þær séu í heim­in­um. 

Frétt mbl.is: Þakk­ar ís­lensk­um kon­um hug­rekkið.

Frétt mbl.is: „Þetta skipt­ir okk­ur miklu máli“

Mótmælendur í Varsjá í Póllandi.
Mótmælendur í Varsjá í Póllandi. AFP
Svartur mánudagur í gær.
Svartur mánudagur í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert