Sjálfsmorðsárás tekin upp með dróna

Mikil sprenging varð þegar árásin varð gerð.
Mikil sprenging varð þegar árásin varð gerð. Ljósmynd/Skjáskot

Talibanar í Afganistan hafa sent frá sér myndskeið sem sýnir sjálfsmorðsárás sem var gerð í héraðinu Helmand.

Myndskeiðið var tekið upp með dróna og er þetta í fyrsta sinn sem hryðjuverkasamtökin nota slíka tækni til að taka upp árásir.

Humvee-jeppa er ekið á mikilli ferð inn í herstöð í Nawa-hverfinu í myndskeiðinu. Þegar þangað er komið sprengir árásarmaðurinn sig í loft upp.

Eins og sjá má í myndbandinu varð sprengingin mikil og fylgdi henni stórt og mikið reykjarský. Enginn virtist reyna að stöðva jeppann er hann ók inn í herstöðina.

Afganska varnarmálaráðuneytið hefur gefið út yfirlýsingu þar sem það segir myndskeiðið vera áróður.

Þegar talibanar réðu ríkjum í Afganistan á árunum 1996 til 2001 voru nánast öll rafeindatæki bönnuð og þau sögð andstæð íslamskri trú.

Núna virðast þeir hafa breytt um stefnu, bæði hvað varðar rafeindatæki og notkun samfélagsmiðla, en þar eru þeir afar virkir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert