Fjórir létust í skemmtigarði

Thunder River Rapids í Dreamworld garðinum í Ástralíu.
Thunder River Rapids í Dreamworld garðinum í Ástralíu. Wikipedia

Fjórir létust í tæki í Dreamworld-skemmtigarðinum á Gullströndinni í Queensland, Ástralíu, í dag. BBC hefur eftir lögreglunni í Queensland að hún sé að sinna alvarlegu atviki í garðinum en talið er að slysið hafi átt sér stað í Thunder River Rapids-tækinu en þar er siglt niður ólgandi fljót á kringlóttum bátum sem geta farið á allt að 45 km hraða. 

Á vef Dreamworld kemur fram að garðurinn, sem er á Gullströndinni, suður af Brisbane, sé stærsti skemmtigarður landsins en þar er að finna um 50 rússíbana og önnur tæki. Lögreglan í Queensland hefur sent frá sér yfirlýsingu um að fjórir hafi látist í slysinu en unnið er að rannsókn á því hvað varð til þess að bátnum hvolfdi.

Fólk sem var í garðinum þegar slysið varð lýsir því hvernig örvænting greip um sig þegar bát í tækinu hvolfdi en allir þeir sem létust eru fullorðnir, samkvæmt fyrstu fréttum af slysinu. Lögreglan telur að slysið tengist færibandinu sem bátarnir eru á í tækinu en alls geta sex verið í hverjum bát. Sex voru í bátnum sem hvolfdi en tveimur tókst að komast upp á yfirborðið en fjórir drukknuðu. Slysið varð rétt áður en ferðalagi fólksins niður fljótið lauk. Tveir karlar og tvær konur, allt fólk á fertugsaldri, létust.

Vitni lýsa mikilli skelfingu sem greip um sig þegar slysið varð enda margir í garðinum þegar slysið varð og því mörg vitni að dauða fólksins.

Thunder River Rapids-tækið var sett upp í garðinum árið 1986 og samkvæmt vef Dreamworld er það jafnt fyrir börn og fullorðna en til þess að börn geti farið án fylgdar fullorðinna þurfa þau að vera 120 cm að hæð eða meira en börn allt niður í tveggja ára aldur geta farið í tækið.

Vefur Dreamworld




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert