Trump ætlar að afnema Obamacare

Donald Trump á kosningafundi í Tampa í Florída. Hann ætlar …
Donald Trump á kosningafundi í Tampa í Florída. Hann ætlar að afnema sjúkratryggingakerfi Obama nái hann kjöri. AFP

Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, hét því í dag að afnema Obamacare, sjúkratryggingakerfið sem Barack Obama Bandaríkjaforseti kom á, eftir að ríkisstjórnin tilkynnti að iðgjaldakostnaður vegna kerfisins myndi aukast um 25% á næsta ári.

„Það verður að afnema Obamacare og skipta því út fyrir eitthvað sem er mun ódýrara, annars er þetta land í jafnvel enn meiri vanda en allir héldu,“ sagði Trump við AFP-fréttastofuna á golfvelli sínum í Doral í Flórída. „Við ætlum að afnema og skipta út Obamacare.“

Heilbrigðis- og velferðarráðuneytið tilkynnti í nýrri skýrslu að tryggingakostnaður myndi hækka í 38 ríkjum vegna sjúkratryggingakerfisins. Er hækkunin sú mesta sem hefur orðið á iðgjöldum frá því sjúkratryggingakerfinu var komið á fyrir tæpum fjórum árum.

Trump var fljótur að tjá sig á Twitter eftir að skýrslan kom út: #Obamacare iðgjöld eru að fara að rjúka upp úr öllu valdi – aftur. Hillary mun bara gera ástandið verra. Við munum afnema og skipta út!,“ sagði í Twitter-skilaboðum Trump.

Starfsmenn framboðs Hillary Clinton, frambjóðanda demókrata, voru fljótir að svara og sögðu Trump vilja afnema allar þær framfarir sem hefðu orðið.

Trump myndi láta „20 milljónir manna missa trygginguna og láta tryggingafélögin semja reglurnar aftur,“ sagði Julie Wood, talsmaður framboðs Clinton. „Hillary Clinton vill byggja á þeim árangri sem hefur náðst og laga það sem er ekki í lagi.“

Repúblikanaflokkurinn hefur ítrekað reynt að afnema sjúkratryggingakerfið, sem veitti milljónum sem áður voru án sjúkratryggingar slíka tryggingu án takmarkana sem byggðu á fyrri skilmálum.   

Trump dró tölur stjórnvalda í efa og sagði hækkunina miklu meiri.

„Obamacare er að blása allt upp,  Hvíta húsið og forsetinn tilkynntu 25-26% hækkun. Þessar tölur eru svo rangar. Þetta er svo rangt. Við erum að tala um 60, 70, 80% hækkun, ekki 25%,“ sagði Trump án þess að útskýra nánar hvaðan þessar tölur kæmu.

Sagði Trump iðgjaldahækkunina í Texas nema 60% en samkvæmt skýrslunni er búist við að hækkunin nemi 18% í lykilríkjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert