Femínismi í norrænni mosku

Fyrsta moskan sem stjórnað er af konu á Norðurlöndum dregur að fólk af ólíkum trúarbrögðum enda umræðuefnið af ýmsum toga, til að mynda íslamstrú og réttindi kvenna. Íhaldsmenn eru ósáttir við ýmislegt sem þar er rætt en aðrir kvarta yfir að hún sé ekki nægjanlega framfarasinnuð.

Sherin Khankan imama í Mariam moskunni í Kaupmannahöfn er alin …
Sherin Khankan imama í Mariam moskunni í Kaupmannahöfn er alin upp við jafnrétti kynjanna enda faðir hennar sýrlensku femínisti og mamma hennar Finni. AFP

Mariam-moskan var opnuð í Kaupmannahöfn í mars og fór fyrsta föstudagsbænin þar fram í ágúst. Danski múslímaklerkurinn Saliha Marie Fetteh predikaði þar, en um það bil 60 konur hlýddu á orð hennar um femínismakenningar í íslam og réttindi kvenna. Aðeins rúmlega helmingur þeirra er þó múslímar því bæði kristnar konur og gyðingar komu til að hlýða á predikunina.

Saliha Marie Fetteh
Saliha Marie Fetteh Skjáskot af Twitter

„Þetta var frábært og mjög áhrifamikið,“ segir Ozlem Cekic, danskur fréttaskýrandi og fyrrverandi þingmaður. Hún er ein þeirra sem mættu á predikunina. „Ég tel að þetta muni styrkja íslam,“ segir Cekic í samtali við AFP-fréttastofuna.

„Umræða um réttindi kvenna er ekki vestrænt fyrirbæri. Það er íslömsk hugsjón,“ segir Sherin Khankan, ein þeirra fimm kvenna sem stýra moskunni. 

Arabískar skreytingar prýða moskuna en fyrir utan heyrist umferðarniður frá höfuðborg Danmerkur. Nafnlaus styrktaraðili greiðir húsaleigu moskunnar, sem er til húsa í einu af dýrustu hverfum Kaupmannahafnar, segir í frétt AFP.

Ozlem Cekic, danskur fréttaskýrandi og fyrrverandi þingmaður.
Ozlem Cekic, danskur fréttaskýrandi og fyrrverandi þingmaður. Wikipedia/Steen Thomassen

Khankan er 42 ára fjögurra barna móðir. Hún er fædd í Danmörku og segir að faðir hennar, sýrlenskur pólitískur flóttamaður, sem kvæntist finnskri kristinni konu, sé táknmynd femínisma. Móðir hennar tók þátt í föstunni á Ramadan þrátt fyrir að vera kristinnar trúar og það sama á við um aðra í fjölskyldunni. Þeir í fjölskyldunni sem eru múslímar fara einnig í kirkju á kristnum trúarhátíðum.

Khankan segir að trúarleg umræða hafi verið ofarlega á baugi í fjölskyldunni og að virðing sé borin fyrir trúarbrögðum annarra. Fyrr á þessu ári átti hún til að mynda formlegan fund með frönskum kvenrabbína, Delphine Horvilleur, í Kaupmannahöfn.

Sherin Khankan er imama í Mariam moskunni í Kaupmannahöfn. Hún …
Sherin Khankan er imama í Mariam moskunni í Kaupmannahöfn. Hún er femínisti og segir að íslam boði jafnrétti kynjanna. AFP

Árið 2001 stofnaði hún samtökin „Kristiske Muslimer“, þar sem áherslan er lögð á fjöllýðræðislega nálgun íslam. En mánuði síðar, 11. september, voru árásirnar gerðar á Bandaríkin og viðhorf heimsins til múslíma breyttust í einum vetfangi. Hún segir að allt í einu hafi hún staðið frammi fyrir því oftar og oftar að verja íslam.

Delphine Horvilleur, franskur rabbíni.
Delphine Horvilleur, franskur rabbíni. Wikipedia

Í fyrra kom íslam í kastljós fjölmiðla í Danmörku eftir að dansk-palestínskur byssumaður skaut kvikmyndagerðarmann og öryggisvörð í bænahúsi gyðinga til bana í tveimur árásum í Kaupmannahöfn.

Nýja moskan vekur ekki hrifningu allra og að sögn Khankan hefur henni verið hótað af öfgaþjóðernissinnum á samfélagsmiðlum. Íhaldssamir múslímar hafa látið lítið fyrir sér fara í opinberri umræðu um moskuna og er talið að það skýrist af ótta við að það leiði til enn einnar umræðunnar um múslíma og innflytjendur í Danmörku, sem oft hefur orðið hatrömm á undanförnum fimmtán árum.

Þú ögrar einokun karla

„Þegar þú breytir fyrirkomulagi í trúarstofnun ertu að breyta valdahlutföllum. Þú ert að ögra einokun karla,“ segir Khankan í viðtali við AFP. „Að sjálfsögðu mætir þú andstöðu, það er augljóst og við gerum okkur grein fyrir því. En ég held að andstaðan sem við höfum mætt hafi verið fremur hófsöm,“ bætir hún við.

Danski kvik­mynda­gerðarmaður­inn Finn Nørga­ard var skotinn til bana af Omar …
Danski kvik­mynda­gerðarmaður­inn Finn Nørga­ard var skotinn til bana af Omar El-Hus­sein. AFP

Þegar AFP-fréttastofan leitaði eftir viðbrögðum nokkurra moska í Kaupmannahöfn við nýju moskunni var fátt um svör enda ekki langt síðan Mariam-moskan tók til starfa og fáir reiðubúnir að ræða málefni hennar við fjölmiðla. Þegar Mariam-moskan var opnuð í mars sagði Waseem Hussein, klerkur (imam) í einni af stærstu moskum Kaupmannahafnar, að það væri engin þörf á kvenmosku. 

Ættum við að reisa sér mosku fyrir karla?

„Ættum við að reisa mosku sem aðeins er ætluð körlum? Þá myndi svo sannarlega brjótast út reiði meðal dönsku þjóðarinnar,“ sagði Hussein í viðtali við Politiken fyrr á árinu.

Bæði karlar og konur mega taka þátt í starfsemi Mariam-moskunnar en föstudagsbænirnar eru ætlaðar konum.

„Samkvæmt kóraninum standa karlar og konur jafnfætis á andlega sviðinu,“ segir Khankan og bætir við að innan moskunnar sé verið að endurlesa kóraninn í samræmi við þá tíma sem nú eru og það þjóðfélag sem þær búi í.

Innblástur moskunnar kemur frá súfistum og flestir þeirra sem þangað koma eru súnní-múslímar. Sérstaklega er tekið fram að allir séu velkomnir í moskuna. Kvenklerkar (imama) hafa verið til í Kína allt frá 19. öld og eru starfandi í nokkrum ríkjum, þar á meðal í Þýskalandi, Belgíu, Kanada og Bandaríkjunum. Alls eru 284 þúsund múslímar búsettir í Danmörku.

Íslamskur femínismi meginverkefnið

Meginverkefni moskunnar er íslamskur femínismi og sést það vel á hjónavígslum innan moskunnar. Þar mega konur óska eftir skilnaði, fjölkvæni er bannað, karlar og konur njóta sömu réttinda til barna eftir skilnað og hjónabandið er ógilt ef um líkamlegt eða andlegt ofbeldi er að ræða í hjónabandinu. 

Fimm pör hafa gengið í hjónaband í moskunni og í tveimur tilvikum er um að ræða hjón sem eru sitt hvorrar trúar. Þrjár hjónavígslur eru í undirbúningi í moskunni. Khankan viðurkennir að hún hafi þurft að gefa eftir á sumum sviðum til þess að koma í veg fyrir deilur við önnur samfélög múslíma í Danmörku. 

Sherin Khankan segir að innan fjölskyldunnar hafi alltaf verið borin …
Sherin Khankan segir að innan fjölskyldunnar hafi alltaf verið borin virðing fyrir trúarskoðunum annarra. Faðir hennar er múslími og móðir hennar er kristin. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert