Hundruð þúsunda mótmæla Maduro

Nicolas Maduro, forseti Venesúela. Hundruð þúsund Venesúelabúa tóku þátt í …
Nicolas Maduro, forseti Venesúela. Hundruð þúsund Venesúelabúa tóku þátt í mótmælum dag vegna óánægju með að kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð forsetans hafi verið hafnað. AFP

Meira en 20 særðust og tæplega 40 hafa verið hnepptir í varðhald eftir að mótmælendum og lögreglu lenti saman er hundruð þúsunda Venesúelabúa tóku í dag þátt í mótmælum gegn Nicolas Maduro, forseta landsins.

Myndir hafa verið birtar á samfélagsmiðlum af fólki sem er sagt hafa særst í mótmælunum og segja mannréttindasamtök í landinu að skotið hafi verið á að minnsta kosti þrjá.

Efnt var til mótmælanna eftir að ríkistjórn Maduro kom í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem ætlað var að ákveða framtíð forsetans á valdastóli. Aðgerðarsinnar höfðu safnað saman 200.000 undirskriftum þar sem þjóðaratkvæðagreiðslu var krafist, en kröfunni var hafnað á þeim grundvelli að undirskriftasöfnunin hefði byggst á blekkingum.

Frétt mbl.is: Segja að valdarán hafi verið framið

Frétt mbl.is: Meinað að yfirgefa Venesúela

Þingheimur Venesúela kaus á þriðjudag að réttað yrði yfir Maduro, sem þingmenn saka um brot á stjórnarskrá landsins.

Mótmælendum lenti saman við öryggissveitir víða um land í dag, sérstaklega í borgunum San Cristobal og Maracaibo.

„Þjóðaratkvæðagreiðslan var stjórnarskrárvarinn réttur okkar og þeir hafa synjað okkur um hann. Við hvað eru þeir hræddir?“ hefur fréttavefur BBC eftir Grimaldi Lopez, sem tók þátt í mótmælunum í höfuðborginni Caracas.

Alfredo Romero, leiðtogi mannréttindasamtaka í landinu, birti í Twitter-skilaboðum mynd af 79 ára gamalli konu sem slasaðist í mótmælunum og sagði hann rúmlega 20 manns hafa slasast í borginni Merida.

Stjórnarandstaða Venesúela kennir Maduro um slæmt efnahagsástand í landinu og vill losna við forsetann frá völdum sem allra fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert