Sleppa á annað hundrað barnahermönnum

Hermenn úr Frelsisher súdönsku þjóðarinnar. Hluti þeirra 174 barnahermanna sem …
Hermenn úr Frelsisher súdönsku þjóðarinnar. Hluti þeirra 174 barnahermanna sem var sleppt í dag kom úr röðum hans. AFP

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna segist hafa samið um að tveir hópar uppreisnarmanna í Suður-Súdan sleppi samtals 145 barnahermönnum. Sameinuðu þjóðirnar áætla að um sextán þúsund börn berjist nú eða vinni með vopnuðum hópum í landinu, þar á meðal stjórnarhernum.

Börnin sem sleppt var í dag koma úr hópum sem kalla sig Kóbraflokkinn og Frelsisher súdönsku þjóðarinnar, sem heyja vopnaða baráttu í Pibor-héraði í austurhluta Suður-Súdan. Í fyrra slepptu vopnaðir hópar á sama svæði samtals 1.775 barnahermönnum.

„Von okkar er sú að mörg önnur muni fylgja þeim sem var sleppt í dag,“ segir Mahimbo Mdoe, yfirmaður UNICEF í Suður-Súdan.

Stofnunin segir að fleiri en 800 börn hafi verið fengin til liðs við vopnaðar sveitir það sem af er þessu ári. Borgarstyrjöld hófst í landinu í desember árið 2013 og hafa átök haldið áfram þrátt fyrir friðarumleitanir alþjóðasamfélagsins.

Börnin sem eru frelsuð eru afvopnuð, fá borgaraleg föt og er komið í endurhæfingaráætlun þar sem þau fá ráðgjöf og reynt er að hafa uppi á fjölskyldum þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert