„Bærinn okkar er búinn að vera“

Hundruð héldu til í neyðarskýlum á Ítalíu í nótt eftir að hafa flúið heimili sín í kjölfar jarðskjálftahrinu á svipuðum slóðum og stóri skjálftinn sem reið yfir fyrir tveimur mánuðum og lagði heilu þorpin í rúst.

Snemma í morgun, í úrhellisrigningu, voru björgunarsveitarmenn og starfsmenn almannavarna að skoða ummerki eftir skjálftana í gærkvöldi. Tugir slösuðust í skjálftunum og einhver hús hrundu. 

Tveir skjálftar upp á 5,5 og 6,1 stig riðu yfir í gærkvöldi og nokkrir eftirskjálftar mældust fram eftir nóttu. 

„Mörg hús hafa hrunið. Bærinn okkar er búinn að vera,“ segir Marco Rinaldi, bæjarstjóri í fjallabænum Ussita, í viðtali við Sky-fréttastofuna á Ítalíu. „Sá seinni var langur, skelfilegur skjálfti.“

Vitað er að einn maður lést af völdum hjartaáfalls þegar skjálftarnir riðu yfir og tugir slösuðust. Upptök skjálftanna voru ekki langt frá bænum Amatrice sem þurrkaðist út í ágúst. Þá létust um 300 manns og hundruð slösuðust.

Báðir skjálftarnir áttu upptök við þorpið Visso í Marche-héraði. „Ég hef upplifað fjölda jarðskjálfta en þessi var sá sterkasti sem ég hef nokkru sinni upplifað. Til allar hamingju höfðu allir yfirgefið heimili sín eftir fyrri skjálftann svo ég held að allir hafi sloppið ómeiddir,“ segir Rinaldi, en skjálftinn sem mældist 6,1 stig reið yfir tveimur klukkutímum á eftir þeim fyrri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert