Kynferðisofbeldi í flóttamannamiðstöð

Børnecenter Tullebølle
Børnecenter Tullebølle Af vef DIS

Flóttamannamiðstöðinni í bænum Tullebølle á dönsku eyjunni Langeland verður lokað vegna ítrekaðra vandamála sem þar hafa komið upp en þar eru fylgdarlaus börn og ungmenni hýst. Starfskonur þar eru grunaðar um kynferðisofbeldi gagnvart skjólstæðingum sínum.

Útlendingastofnun Danmerkur, (Udlændingestyrelsen - DIS), sendi frá sér tilkynningu í gær um að miðstöðinni yrði lokað síðar í vikunni, en samkvæmt fréttatilkynningu fékk stofnunin upplýsingar um það í síðustu viku að tvær konur sem starfa þar hefðu gerst sekar um kynferðisofbeldi gagnvart einum eða fleiri drengjum sem þar búa. Allir íbúar Tullebølle-flóttamannamiðstöðvarinnar eru yngri en 18 ára.

Inger Støjberg, ráðherra innflytjendamála, segir í viðtali við danska ríkisútvarpið að konunum tveimur hafi verið vikið úr starfi og að lögreglan á Fjóni rannsaki ásakanir á hendur þeim. Grunur um kynferðislegt ofbeldi kvennanna hefur legið fyrir í einhverja mánuði en Støjberg segir að hvorki hún né DIS hafi fengið upplýsingar um það fyrr en í síðustu viku.

„Sveitarfélagið Langeland á að tilkynna mér um kynferðislegt ofbeldi í miðstöðvum sem þessum um leið,“ segir hún í viðtali við DR.

Sýslumaðurinn í Langeland, Bjarne Nielsen, segir í viðtali við DR að hann hafi ekki heyrt um ásakanirnar fyrr en nýlega og sakar starfsfólk flóttamannamiðstöðvarinnar um að leyna ofbeldinu.

„Það er algjörlega óviðunandi og við munum ræða þetta við stjórnendur,“ segir hann.

Ásakanirnar nú eru enn eitt málið sem kemur upp í Tullebølle, en um 40 drengir eru hýstir þar. Fyrr í mánuðinum kom til hópslagsmála á eyjunni meðal íbúa miðstöðvarinnar. Enginn slasaðist alvarlega en 15 ára gamall flóttadrengur barði starfsmann með járnröri. Í ágúst voru fimm unglingspiltar sem búsettir eru í búðunum í Tullebølle ákærðir fyrir kynferðislegt ofbeldi á Langelandshátíðinni. Þrír þeirra voru ákærðir fyrir að káfa á 16 ára gamalli stúlku og tveir voru ákærðir fyrir að hafa nauðgað stúlkunni.

Í júlí brutust út hópslagsmál milli drengja þaðan og drengja af öðru flóttamannaheimili fyrir fylgdarlaus ungmenni í tengslum við knattspyrnuleik á milli flóttamannamiðstöðva.

Støjberg segir tímabært að loka flóttamannamiðstöðinni. Allt of mörg ofbeldismál hafi komið upp í tengslum við hana. Drengirnir sem þar búa verða fluttir í aðrar flóttamannamiðstöðvar í Danmörku.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert