Áhrif þurrksins ekki náð hámarki

Á sumum svæðum í Mósambík hefur regndropi ekki fallið af …
Á sumum svæðum í Mósambík hefur regndropi ekki fallið af himni í þrjú ár. Myndin er úr safni. AFP

Sameinuðu þjóðirnar vara við því að áhrif versta þurrks sem dunið hefur á sunnanverðri Afríku í 35 ár eigi eftir að versna á næstu mánuðum. Loftslagsfulltrúi alþjóðasamtakanna segir að hættuástandið á svæðinu hafi enn ekki náð hámarki sínu en það verði sem verst í janúar.

Þurrkurinn hefur valdið þrengingum hjá átján milljónum manna í sunnanverðri álfunni. Mósambík hefur orðið einna verst úti í þurrkinum ásamt Simbabve, Malaví, Lesótó og sunnanverðri Madagaskar.

Marcharia Kamau, sérstakur sendifulltrúi SÞ vegna El niño-fyrirbrigðisins og loftslagsbreytinga, lauk fjögurra daga ferð um Mósambík til að kynna sér aðstæður í dag. Kamau segir að það sem bar fyrir augu þar hafi hryggt hann og valdið honum áfalli. Þar hafi víðáttumikil landsvæði verið skraufþurr og eyðileg.

„Mörg börn, konur og aldraðir eiga eftir að glíma við að lifa af á næstu mánuðum,“ sagði Kamau eftir að hann heimsótti uppþornuð svæði.

Regn hefur ekki fallið í sumum hlutum Mósambík í þrjú ár samkvæmt náttúruhamfaraeftirlitsstofnun landsins. El niño hefur verið kennt um þurrkinn á svæðinu en veðurfyrirbærið á sér stað á tveggja til sjö ára fresti og hefur mikil áhrif á úrkomu á jörðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert