Brenndi bílstjórann lifandi

AFP

Farþegi í strætisvagni í áströlsku borginni Brisbane hellti eldfimum vökva yfir bílstjórann og brenndi hann lifandi fyrir framan skelfingu lostna farþega í vagninum í dag.

Að sögn lögreglu er ekki vitað hvað morðingjanum gekk til en bílstjórinn var 29 ára og heitir Manmeet Alisher, vel þekktur söngvari í samfélagi Indverja í borginni.

Yfirlögregluþjónn í Brisbane, Jim Keogh, segir í samtali við fjölmiðla að um skelfilegan atburð sé að ræða í rólegu úthverfi. Svo virðist sem engin ástæða hafi verið á bak við morðið sem sé afar fátítt. Að um algjörlega tilgangslausan verknað hafi verið að ræða.

Keogh segir óskiljanlegt að maður sé sviptur lífinu á þennan hátt en morðinginn, sem er 48 ára, er í haldi lögreglu.

Að sögn Keogh voru það vegfarendur sem spörkuðu upp afturhurð strætisvagnsins og björguðu farþegum út úr brennandi bílnum þar sem farþegarnir voru í áfalli og gátu sig hvergi hrært. „Það er einskær heppni að bíllinn varð ekki alelda,“ segir Keogh.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert