Boeing-vél í ljósum logum í Chicago

Þykkan svartan reyk lagði frá vélinni og farþegar urðu að …
Þykkan svartan reyk lagði frá vélinni og farþegar urðu að nota neyðarútgang til að komast frá borði. Skjáskot/Twitter

Flugbraut á O‘Hare-alþjóðaflugvellinum í Chicago var lokað síðdegis í dag vegna bilaðrar flugvélar að því er sagði í Twitter-tilkynningu frá bandaríska flugeftirlitinu. Fréttastofa CNN segir þykkan reyk hafa borist frá flugvélinni sem er frá flugfélaginu American Airlines og að eldhnöttur hafi sést á hægri hlið vélarinnar, sem hætt var við flugtak á.



Bandaríska loftferðaeftirlitið sagði eitt af dekkjum vélarinnar, sem er af gerðinni Boeing 767 hafa sprungið er vélin var að undirbúa flugtak til Miami og vélbúnaðar skemmst. Flugmaðurinn hætti við flugtak og allir farþegar vélarinnar, 161, og níu manna áhöfn náðu að nýta sér neyðarútganga til að komast út.

Sjö farþeganna og einn úr áhöfn slösuðust lítillega og var farið með þá á sjúkrahús til aðhlynningar.

„Við erum að annast farþegana og áhöfn og erum að finna aðrar flugferðir til að koma farþegunum til Miami nú í kvöld,“ sagði í yfirlýsingu frá American Airlines.

Josiah Ryan, starfsmaður CNN, lenti með annarri vél á flugvellinum skömmu áður. Stuttu eftir að vélin lenti sagði flugstjórinn farþegum að slys hefði orðið á einni flugbrautanna.

Ryan sagðist hafa séð slökkviliðsbíla koma þjótandi eftir flugbrautinni á miklum hraða og að þykkur, svartur reykur hefði teygst til himins.

Myndband sem einn sjónarvotta birti á Twitter sýnir reyk leggja frá vélinni og eldtungur loga við flugvélarskrokkinn. Þá sáust farþegar nýta sér eftir neyðarrennu til að komast frá borði.

Þremur af flugbrautum flugvallarins var lokað er slysið varð. Eldurinn kom upp um hálfþrjúleytið í dag að staðartíma og var slökkvilið búið að ráða niðurlögum eldsins um hálftíma síðar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert