Hleruðu síma borgarstjóra

Trude Drevland, fyrrverandi borgarstjóri í Bergen
Trude Drevland, fyrrverandi borgarstjóri í Bergen Wikipedia

Norska lögreglan hleraði síma fyrrverandi borgarstjóra Bergen, Trude Drevland, þegar hún var til rannsóknar í spillingarmáli og forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, segist ekki vita hvort símtöl þeirra hafi verið hleruð.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í frétt Bergens Tidende en Drevland, sem var borgarstjóri fyrir hönd Hægriflokksins, var að gefa út ævisögu þar sem hún fjallar meðal annars um lögreglurannsóknina. Málið snerist um lúxusferð sem hún fór í til Feneyja með einkaþotu skipafélagseigandans Torstein Hagen. Í bókinni segir Drevland að lögreglan í Ósló hafi hlerað síma hennar um tíma haustið 2015. Á þessum tíma var hún enn borgarstjóri í Bergen og frammákona í flokk Solbergs, Hægriflokknum. Hún segir að lögreglan hafi hlustað á öll þeirra símtöl á þessum tíma en hún hefur áður talað um hversu mikinn stuðning Solberg hafi veitt henni þegar rannsóknin stóð yfir.

Solberg man ekki hvort þær hafi talað saman í síma eða aðeins í gegnum sms skilaboð. „Ég held að öll samskipti okkar hafi verið með sms. Ég veit að ég sendi henni skilaboð eftir kosningakvöldið en man ekki hvort við töluðum saman. En ég er ekki viss. Engu að síður stend ég við allt sem ég hef sagt í samtölum,“ segir Solberg í viðtali við Bergen Tidende.

Lögmaður Drevlands, John Christian Elden, segir í viðtali við Bergens Tidende að það sé fáránlegt að borgarstjóri í mikilvægustu borg Noregs þurfi að upplifa að sími hans sé hleraður nokkrum dögum fyrir kosningar. Hvorki Elden né Drevland hafa fengið nákvæmlega uppgefið hvað hafi komið fram í þeim símtölum sem voru hleruð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert